Álagablettur í Utanverðunesi
Hegranes er fyrir botni Skagafjarðar. Það nær um tíu kílómetra inn í landið en nyrsti hluti þess sem heitir Utanverðunes er út í fjörð. Fyrir þúsundum ára var nesið eyja og þar er sögð vera ein þéttasta huldufólksbyggð landsins.
Seint á áttunda áratugnum stóð til að endurnýja veg sem liggur yfir Utanverðunes og til að liðka fyrir vegstæðinu átti að sprengja í hömrum þar sem heitir Tröllaskarð. Þá komu fram skilaboð á miðilsfundi, og úr fleiri áttum, um að það mætti ekki gera því annars færi illa. Þessar viðvaranir bárust bæði í gegnum þekktasta miðil landsins og komu fram í sýn og draumum hjá öðrum.
Það var á miðilsfundi með Hafsteini Björnssyni á Sauðárkróki sem rödd að handan spurði hvað væri að frétta af Tröllaskarði. Spurningunni var beint til Erlu, konu rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á staðnum. Hún kannaðist ekki við neitt Tröllaskarð en var sagt eftir fundinn af konu vegavinnumanns, að til stæði að leggja þar veg. Daginn eftir var annar miðilsfundur og þá var Erla búin að spyrja mann sinn út í framkvæmdina og sagði andastjórnandanum Rúnólfi að nú vissi hún um hvað málið snérist.
Þá var henni sagt að hamrarnir við Tröllaskarð væru bannhelgar og að álög hefði verið lögð af huldukonunni Grímu fyrir löngu síðan. Margir látnir bændur þarna af nesinu væru líka á móti því að Tröllaskarð yrði eyðilagt, það væri í sjálfu sér í lagi að vegurinn lægi þarna en það mætti ekki sprengja. Ef það væri gert yrði hefnt í samræmi við umfang skemmdanna. Umbeðin kom Erla þessum skilaboðum áfram til Gísla mannsins síns sem kom þeim svo til sinna yfirmanna. En byrjað var að leggja veginn úr tveimur áttum í átt að skarðinu.
Þá gerist það næst að til Gísla kom ungur bóndi úr sveitinni og segir honum nokkuð vandræðalegur að hann sé með skilaboð sem hann hafi lofað að færa frá móður sinni. Hún bjó á Ísafirði en hafði verið í heimsókn þegar henni fannst eins og til hennar kæmi skartbúinn maður með hund sem varaði við að sprengt yrði í skarðinu. Hún vissi ekki hvað átt væri við, en spurði hvað myndi gerast þá. Svarið var að þá yrðu afleiðingarnar í réttu hlutfalli við verknaðinn. Sömuleiðis þessum skilaboðum kom Gísli áfram.
Nú fóru menn í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Reykjavík að hafa áhyggjur af ástandinu sem var að skapast í Skagafirði og var að lokum ákveðið að halda leynifund með Hafsteini miðli. Á hann mættu hjónin Erla og Gísli, hönnuður vegarins og tveir til frá Vegagerðinni.
Enginn frá Vegagerðinni höfðu komið á miðilsfund áður en sannfærðust brátt um hæfileika Hafsteins eftir að látnir menn sem þeim tengdust komu í gegn og töluðu til þeirra. Andastjórnandinn Rúnólfur sem talaði í gegnum Hafstein fór líka yfir framkvæmdaáætlunina í Tröllaskarði og þekkti vel til hennar. Fram kom á fundinum að það væru bæði framliðnir bændur og huldufólk sem væri á móti því að sprengt yrði í Tröllaskarði.
Hér var um mun stærri breytingu að ræða heldur en að flytja eða sveigja hjá einum álfasteini eins og fordæmi voru fyrir. Helst var það hönnuður vegarins sem var óánægður og reyna að semja um það hvort ekki væri hægt að fá að sprengja eitthvað aðeins. Hann bað um að fá að tala beint við Grímu en fékk að vita að hún væri ekki viðstödd í þeim andaheimi sem Rúnólfur væri í. Lauk þessum fundi þannig að Rúnólfur fékk það verkefni að ná við hana beinu sambandi áður en lengra væri haldið.
En áður en til þess kom að samningaviðræður gætu haldið áfram varð Hafsteinn miðill bráðkvaddur þar sem hann var við heyskap í Hafnarfirði. Um hann voru ritaðar minningargreinar í öllum helstu blöðum landsins, en Vegagerðin stóð eftir í óvissu.
Þó farið hefði verið leynt með fundinn spurðist hann út og tók að bera á óróleika meðal vegavinnumanna. Hönnuðurinn reyndi að halda áfram samningaviðræðum með hjálp tveggja skyggnra kvenna en fékk misvísandi svör. Að lokum var ákveðið að sleppa því að sprengja og leggja veginn yfir hamrana öðru megin, þó það þýddi að þar kæmi blindhæð.
En handanöflin voru enn ekki örugg og verkstjóranum Alfreð dreymdi tvisvar að hann væri staddur við skarðið. Í fyrri draumnum fannst honum sem sótt væri að honum en hann varinn af flokkstjóranum, ungum manni sem var að læra til prests. Í seinna skiptið var honum skellt á jörðina og haldið föstum þangað til hann lofaði að engu yrði raskað. Honum varð svo mikið um þessa drauma að hann hugleiddi að segja sig frá verkinu, en úr varð að vegurinn var lagður hægt og varlega, og Alfreð var vakinn og sofinn að gæta þess að eins litlu yrði raskað og mögulegt var.
Í dag er á Utanverðunesi stór blindhæð til merkis um það þegar Vegagerðin lét undan kröfum anda og huldufólks um að sprengja ekki í Tröllaskarði. En þrátt fyrir hættuna sem blindhæðir geta skapað er sagt að þarna hafi aldrei orðið alvarleg slys og er trú fólks að huldufólkið haldi verndarhendi yfir vegfarendum.
Heimildir
- Being Elveswhere (2015). Páll Ásgeir Ásgeirsson
- Galdrasögur. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1960). Jón Árnason
- Hafsteinn Björnsson. Mystic Iceland
- Hjólaskóflur og huldufólk. Þjóðerni í þúsund ár? (2003). Valdimar Tr. Hafstein
- Huldufólkið og hefndir Grímu. Skagfirðingabók, 1997
- Huliðsöflin allt um kring (1993). Einar Ingvi Magnússon
- Menn verða varir við huldufólk. Íslenzkar þjóðsögur (1978). Ólafur Davíðsson
- Utanverðunes. Nafnið
- Vegagerð á miðilsfundi vegna meints álagabletts í Hegranesi. Morgunblaðið B, 22. ágúst 1997