Gagnnjósnarinn

innafjörður, Langanesbyggð

Það var norðaustan kafaldsbylur, aðfaranótt 6. apríl 1942, þegar þýski kafbáturinn U-252 kom upp á yfirborðið í Finnafirði hjá Langanesi. Þetta ár var Orrustan um Atlantshafið í hámarki og frá borði fór maður sem sendur var til að njósna um bandamenn. Með senditæki og vopnaður skammbyssu réri hann á gúmmíbát í átt að briminu við ströndina og komst á land við illan leik eftir að hafa steytt á skeri, en kafbáturinn sigldi suður og var sökkt með allri áhöfn átta dögum seinna vestur af Biscayaflóa.

Langanes - map.is

Njósnarinn fann að ekki var nokkur leið að grafa þriggja metra langan gúmmíbátinn niður í frosna jörðina eins og honum hafði verið sagt að gera, svo hann skildi hann eftir. En með lítilli samanbrjótanlegri skóflu tóks honum að koma senditækinu og skammbyssunni í sitthvora holuna sem hann lagði á minnið hvar væru. Svo byrjaði hann að leita að næsta bæ og minnstu munaði að njósnaleiðangrinum lyki þar vegna óveðursins.

Það var komið fram á næsta kvöld þegar hann blautur, kaldur og nær örmagna, sá loksins ljós á bænum Felli. Hefði ekki viljað þannig til að ein dóttirin á bænum átti afmæli hefði fólkið verið farið að sofa á þessum tíma og búið að slökkva ljósin. Þá er eins líklegt að hann hefði farið framhjá bænum og orðið úti.

Þessi útsendari hét Ib Árnason Riis og var íslenskur en fæddur í Danmörku þar sem foreldrar hans bjuggu. Þýska leyniþjónustan setti sig í samband við hann og bauðst til að koma honum til Íslands gegn smávægis greiða. Fyrst hljómaði tilboðið upp á að hann þyrfti bara að afhenda bréf á Íslandi þegar búið væri að smygla honum til landsins í gegnum Lissabon og New York.

Ib tók því tilboði því hann var atvinnulaus og átti betri von á að finna vinnu á Íslandi. Hugsaði með sér að svo gæti hann bara sleppt því að koma bréfinu til skila. Svo breyttist áætlunin og nú átti hann að fá sitt eigið skip til eignar gegn því að koma einum farþega í land óséðum.

Að lokum var planið orðið þannig að hann færi til Íslands með kafbát og ætti þar að stunda njósnir. Á meðan á þessum þreyfingum stóð var stöðugt verið að gauka að honum peningum og þegar hann loks skildi hvað uppi var á teningunum fannst honum orðið of seint að hætta við því nú var hann kominn í skuld auk þess sem þýsku leyniþjónustumennirnir minntu hann stöðugt á, að þeir vissu hvar foreldrar hans ættu heima.

Þjóðverjar gáfu honum fyrst dulnefnið HEKLA en breyttu því svo í EDDA og eftir að hafa farið í þjálfun í Hamborg til að læra að senda dulkóðuð morsskeyti lagði hann af stað frá Helgolandi í nýsmíðuðum kafbát. Það var siglt á fimmtíu metra dýpi í átt til landsins og einu sinni á leiðinni var djúpsprengjum varpað að þeim.

Ib var með stýrimannaréttindi og fékk að velja hvar við landið hann yrði látinn úr. Hann valdi Langanes vegna þess hvað það er afskekkt og Þjóðverjar áttu seinna eftir að nota þennan stað allavega einu sinni í viðbót til að láta á land njósnara.

Eins og áður segir slapp Ib naumlega við að verða úti í vondu veðri en komst í skjól á bænum Felli. Það fyrsta sem hann gerði eftir að hann var búinn að jafna sig var að láta fara með sig að næsta síma til að tilkynna um komu sína. Bretar sendu flokk til að ná í hann og halda á Þórshöfn þar til honum var siglt til Reykjavíkur.

Þar fór hann í yfirheyrslu hjá breskum leyniþjónustumanni og sagði þar allt af létta eins og var, að hann væri sendur af Þjóðverjum til að njósna um bandamenn á Íslandi. Eftir að hafa verið flogið aftur til Langanes til að sækja senditækið, dulmálsbók og dulmálslykil var flogið með hann til Bretlands þar sem honum var haldið í einangrun í London í rúma viku. Við það var hann mjög ósáttur því hann hafði sjálfur gefið sig fram og boðið þjónustu sína. En lokst fékk hann að vita að hann ætti að verða gagnnjósnari undir dulnefninu COBWEB.

Kominn aftur til Reykjavíkur fékk Ib vinnu á skrifstofu breska flotans og var það hluti af blekkingunni því hann útskýrði fyrir Þjóðverjum vitneskju sína um skipalestir bandamanna með þessari vinnu. En kaupið var lágt og rétt dugði honum fyrir mat og húsnæði. Ef hann vildi kaupa sér föt varð hann að sleppa úr máltíðum enda gekk hann oftast í sömu fötum og hann var í þegar hann kom á land, einkennisbúningi norska kaupskipaflotans sem hann breytti til að líkjast meira breskum einkennisbúningi.

Bretar tóku strax að hlusta á tíðnina sem hann átti að hafa samskipti við Þjóðverja á, og Ib var sagt að Þjóðverjar hefðu verið að reyna að hafa samband frá því hann kom í land. Blekkingarleikurinn sem Ib tók þátt í á Íslandi var hluti af stærri áætlun kölluð Double-Cross sem var virk allt stríðið og náði um alla Evrópu. Hún gekk út á að Bretar snéru njósnurum Þjóðverja til að vinna fyrir sig og notuðu þá til að mata þýsku leyniþjónustuna á fölskum upplýsingum.

Ib átti að senda upplýsingar um skipalestir, herafla og veðurfréttir. Um skipalestir sendi hann fölsk skeyti blandin sannleik, um heraflann á Íslandi lygar og ýkjur en um veðrið mátti hann ekkert segja og bar því við þegar þjóðverjar kvörtuðu, að bandamenn hefðu gert allar loftvogir á landinu upptækar. Því gat hann engar upplýsingar veitt um hæðir og lægðir yfir landinu, og Þjóðverjar því ekki reiknað út hvaða áhrif það myndi hafa á veðrið á meginlandi Evrópu.

Síðar gaf annar íslenskur útsendara Þjóðverja sig fram við Breta. Hann kom á land á sama stað og Ib, með senditæki og loftvog. Honum var líka snúið til þjónustu við Bandamenn og fékk nafnið BEETLE. Hann fékk ekki að halda loftvoginni og sagði Þjóðverjum líklega að hún hefði eyðilagst.

Fyrirkomulagið var þannig að í flestum tilfellum létu Bretar Ib fá textann sem átti að senda og hann sá sjálfur um að snúa honum á dulmálið sem honum hafði verið kennt og átti að orða það eftir sínu lagi. En snemma eftir að hann hóf störf sem gagnnjósnari var honum afhent skeyti til sendingar sem var búið að dulkóða og vissi ekki hvað í því stóð. Eftir á taldi hann víst að það hefði tengst skipalestinni PQ-17 sem Þjóðverjar réðust á 1. júlí 1942, á leið frá Hvalfirði til Arkangelsk með hergögn og annan búnað til hjálpar Sovétmönnum.

Afdrif skipalestarinnar sem missti 24 af 35 skipum varð hneykslismál þegar í ljós kom að hervernd hafði verið kölluð frá skipalestinni og skilið hana eftir varnarlausa gegn flugvélum og kafbátum Þjóðverja. Þeir skipverjar sem komust af og ættingjar hinna látnu hafa lengi haldið því fram að skipalestin hafi verið notuð sem beita til að lokka orrustuskipið Tirpitz úr höfn þegar bandamenn voru í stöðu til að granda því. En það gekk ekki því það snéri aftur til hafnar í Noregi eftir að hafa verið lagt af stað.

Ib telur að tilgangurinn hafi líka verið sá að fá Þjóðverja til að treysta skeytum hans, og þeir þökkuðu honum vel fyrir upplýsingarnar um PQ-17 og lofuðu honum bónusgreiðslu. Fimm mánuðum seinna tóks með fölskum upplýsingum að lokka orrustuskipið Scharnhorst fram og var því sökkt af bandamönnum.

Árið 2003 var leynd létt af leyniskjölum bresku leyniþjónstunnar MI5 úr stríðinu, þar stendur að Ib sé grunaður um að hafa varað Þjóðverja við. Honum er kennt um að hafa sagt of mikið í skeytinu umrædda, sem leiddi til þess að orrustuskipið Tirpitz snéri aftur til hafnar. Ib brást reiður við þegar The Sunday Times hafði samband við hann vegna þessa og sagði að hann hefði aldrei haft hugmynd um hvað stæði í skeytinu. Fannst honum augljóst að þarna væri verið að leita að blórabögli og sagðist ætla fara fram á leiðréttingu af hálfu breskra yfirvalda.

Ib var í þjónustu G-2, eins og samstarfsvettvangur bresku og bandarísku leyniþjónustunnar var kölluð, til stríðsloka eða frá 1942 til 1945. Þegar hann hætti fékk hann enga umbun eða viðurkenningu fyrir störf sín frá Bretum utan staðfestingar á að hann hefði unnið á skrifstofu breska flotans. Ekki einu sinni farmiða aftur til Danmerkur. Bandaríkjamenn voru honum hjálplegri og yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar á Íslandi gaf honum meðmæli þegar hann loks flutti til Bandaríkjanna þar sem hann bjó til æviloka.

Ib Árnason Riis þótti alltaf illa farið með hann, en þótti það hughreysting að margir hefðu sagt honum að með skeytasendingum sínum hefði hann bjargað lífum margra sjómanna.

Hann fór aldrei aftur að sækja skammbyssuna sem hann gróf í Finnafirði en á umræðuvefnum Gentleman’s Military Interest Club er þráður þar sem íslendingur að nafni Hinrik segist hafa verið í sambandi við Ib á níræðisaldri. Hefði Hinrik fengið hjá honum nánari staðsetningu og hyggðist fara þangað með málmleitartæki að leita. En ekkert hefur heyrst um það í fjölmiðlum að skammbyssan hafi fundist svo mögulega liggur hún þar enn grafin vafin í olíudúk.

Heimildir