Gullskipið
Þann 19. september árið 1667 í ofsaveðri og sunnanstormi strandaði á Skeiðarársandi, hollenskt kaupskip hlaðið dýrum farmi og með um 200 áhafnarmeðlimi og farþega. Flestum eða öllum tókst að komast frá borði en einungis um einn fjórði komst lifandi af sandinum. Kuldinn og stórsjórinn náði hinum. Sjórinn gróf skipið í sand en í um hundrað ár stóðu möstrin upp úr yfirborðinu, þangað til þau voru söguð af og notuð í smíðavið. Eftir það týndist flakið og gerðar hafa verið margar tilraunir til að finna það aftur og þau verðmæti sem mögulega eru enn í því.
Skipið hefur á Íslandi verið kallað Gullskipið, en hét Het Wapen van Amsterdam og var eitt stærsta og glæsilegasta skip sem þar hafði verið smíðað. Það var gert fyrir siglingar til og frá Vestur-Indíum og lagði af stað í sína síðustu ferð, frá Batavia, sem í dag heitir Jakarta. Það átti að leggja af stað í desember en vegna tafa varð það ekki fyrr en í janúar. Skjaldarmerki Amsterdam, eins og nafn þess útlegst á Íslensku, var í samfloti með átta öðrum hollenskum kaupskipum og lá leið þeirra frá frá Asíu, suður fyrir Afríku og norður til Evrópu, sem er um átta mánaða sigling.
Þegar komið var til Góðravonarhöfða Suður-Afríku bættust við þrjú skip í flotann og fylgdu þau skilaboð að vegna stríðs Hollendinga og Englendinga væri ekki óhætti að sigla beina leið í gegnum Ermarsundið á heimleiðinni heldur skyldi fara norður fyrir Bretland, til Hjaltlandseyja undan Skotlandi þar sem herskip biðu til að fylgja þeim í gegnum Norðursjóinn til Amsterdam.
En stuttu áður en skipin náðu þangað skall á ofsaveður, flotinn tvístraðist og skipin hröktust norðu-vestur í áttina til Færeyja. Eitt fórst þar stutt frá en önnur náðu að komast í var milli eyjanna. Het Wapen van Amsterdam hraktist alla leið til Íslands þar sem það fórst undan ströndum Skeiðarársands.
Við Skeiðarársand ná sandrif langt á haf út og hafa mörg skip farist þar allt frá landnámsöld ef ekki fyrr. Sandurinn er kallaður skipakirkjugarður og þar liggja grafin á ströndinni og á hafsbotninum fjölmörg skipsflök frá mismunandi tíma og af ýmsu þjóðerni.
Vitað er að bændur í sveitinni nýttu það sem þeir gátu af strandgóssinu, þó svo stiftamtmaðurinn á Bessastöðum léti þau boð út ganga að allt úr flakinu væri eign konungs og gerði sýslumenn ábyrga fyrir að flytja öll verðmæti til sín. Timbur úr farminum var nýtt í sveitinni og lengi voru sængurföt á bæjunum í kring úr persnesku silki. Farmskrá útlistar auk timburs og silkis fágætar og framandi vörur eins og baðmull, krydd, austurlensk lyf, te, ilmvötn og það sem mesta athygli hefur vakið hjá fjársjóðsleitarmönnum; kopar, perlur, eðalsteina og hrádemanta.
Heimildir segja að farmurinn hafi verið metinn á 43 tunnur af gulli. Í endursögn breyttist það í að um borð hafi verið þetta magn af gulli. En gull og silfur var flutt frá Evrópu til að greiða fyrir vörur í Asíu en ekki í hina áttina. Mögulega er þó að það hafi verið einhver afgangur eftir kaupin sem fluttur hefur verið til baka. Það er líka vitað að áhafnarmeðlimir, sérstaklega yfirmenn, stunduðu einkaverslun sem verslunarfélagið lét óáreitta þó stranglega séð væri það bannað. Ábatinn af slíkri verslun gat verið margfalt meiri heldur en kaupið sem áhöfnin fékk greitt.
Margir hafa í gegnum aldirnar svipast um á Skeiðarársandi í leit að fjársjóðnum, en fyrsta opinbera leyfið fyrir slíkri leit var gefin 1960 og var leitað á sandinum með leyfi hins opinbera og landeiganda í með ýmiskonar búnaði. Loks töldu leitarmenn sig hafa fundið Gullskipið og 1983 var veitt ríkisábyrgð fyrir uppgreftri. Rekið var niður stálþil í kringum flak sem svo reyndist vera um 250 árum yngra og af þýskum togara.
Síðasta skipulagða leitin sem fréttst hefur um hófst 2016 og stendur mögulega enn. Notuð hefur verið nýjasta tækni með drónum til að kortleggja og rannsaka líklegt svæði en ekki hafa borist neinar niðurstöður.
Svo enn liggur flaggskip hollenska verslunarfélagsins Kamer Amsterdam, niðurgrafið einhversstaðar á Skeiðarársandi og varðveitir enn fjársjóð sem líklega samanstendur aðallega af fornleifum, og kannski, mögulega, dýrum málmum, perlum og eðalsteinum sömuleiðis.
Heimildir
- Gullskip á sjó og gullskip á landi. Morgunblaðið, 26. júní 1983
- Het Wapen van Amsterdam. Wikipedia
- Hvar er akkeri gullskipsins sem sökk undan ströndum Skeiðarársands? Vísindavefurinn
- Hvers vegna strandaði gullskipið við Ísland? Lesbók Morgunblaðsins, 3. júlí 1982
- Í leit að gullskipinu. Morgunblaðið, 28. maí 1972
- Indlandsfar hlaðið gulli og gimsteinum strandar á Íslandi. Lesbók Morgunblaðsins, 3. maí 1936
- Leit að gullskipinu hefst á ný. DV, vikublað 19.-21. apríl 2016
- Möstrin sáust í hundrað ár. DV, helgarblað 21.-25. ágúst 2016
- Piparskipið sem varð að gullskipi. Morgunblaðið, 1. júní 1983
- Það yrði ekki minni áhugi fyrir fundi þess en „Vasa.“ Vísir, 27. janúar 1968
- Staðsetning „Gullskipsins“ í fjörukambinum. Morgunblaðið, 9. ágúst 1983
- Skipsstrandið við Skeiðarársand 1667. Heima er bezt, 1. nóvember 1966