Kleifarvatnsskrímslið

Kleifarvatn, Grindavík

Skammt frá Hafnarfirði á leiðinni til Krýsuvíkur er Kleifarvatn sem er þriðja stærsta stöðuvatnið á Suðurlandi og eitt af dýpstu vötnum landsins. Þess er getið í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og hafa þeir eftir frásagnir fólks úr sveitinni sem sáu og óttuðust ókennileg kvikindi í vatninu. Nær okkur í tíma er frásögn rjúpnaskyttu og frænda hans sem líka sáu óþekktar skepnur í vatninu og uppi á landi.

Kleifarvatn og Lambhagatjörn
Kleifarvatn og Lambhagatjörn

Á ferð sinni um landið 1750, er þeir Eggert og Bjarni voru að safna upplýsingum fyrir Danska vísindafélagið, komu þeir við hjá vatninu. Fylgdarmaður þeirra sagði að árið á undan í ágústmánuði hafi fólk sem var við heyskap séð stærðarinnar svartan orm koma úr því og skríða upp á mjótt rif. Fólkið var hrætt og þorði ekki að nálgast orminn, en fyrst hann var lá kyrr þá flýði það ekki, heldur horfði bara óttaslegið á hann liggja og sóla sig í tvær klukkustundir.

Lýsingin á hreyfingum ormsins úr og í vatnið, minnir á ánamaðk, hvernig hann dregur sig saman, setur upp kryppu, og teygir úr sér aftur. Rifið sem um ræðir gæti verið það sem gengur út í vatnið við norðaustur enda vatnsins, á nánast sama stað og rjúpnaskytturnar sáu annarskonar fyrirbæri rúmlega tveimur öldum seinna.

Þeim Eggert og Bjarna var ennfremur sagt að vatnið væri fullt af fiski en að heimamenn þyrðu ekki út á það af ótta við orminn. Sagðist fylgdarmaðurinn margsinnis hafa séð það, bæði einn og með öðrum og hefði það verið nógu lengi uppi við til að hann gæti virt það vel fyrir sér.

Fimm árum seinna sagði maður þeim að hann hefði fyrir skemmstu séð skrímsli synda í yfirborði vatnsins sem var að lögun og lit eins og skata en geysileg fyrirferðar.

Þá er þess getið að fólkið þarna í sveitinni segði skrímslin í Kleifarvatni vera bæði stærri og sæust oftar en skrímslin í Grænavatni sem er þarna stutt frá.

En svo líða nær tvær og hálf öld þar til aftur sést til ókennilegra dýra í Kleifarvatni, allavega svo skrásett sé. Þann 27. október 1984 á laugardagsmorgni, voru tvær rjúpnaskyttur staddar í Vatnshlíð sem er austan megin við Kleifarvatn. Júlíus Ásgeirsson og systursonur hans Ólafur Ólafsson.

Þeir voru ofarlega í hlíðinni, fyrir ofan Lambhagatjörn sem er, eða réttara sagt var alveg við vatnið, en hún er að mestu horfin í dag. Þá taka þeir eftir tveimur dökkum dílum rétt utan við ranann sem aðgreinir Kleifarvatn frá tjörninni og þeir halda í fyrstu að það væru klettar eða steinar. En þá fóru dílarnir að hreyfast og þeir sjá að þarna eru tvö dýr sem synda um, fara svo upp úr og yfir ranann milli vatnsins og tjarnarinnar og ofan í Lambhagatjörn. Upp úr henni aftur innst að austanverðu þar sem þau staldra aðeins við og hverfa bak við leiti, birtast svo aftur, fara ofan í tjörnina á ný og upp úr henni að vestanverðu. Þá fóru þau upp í gilsdrag á Sveifluhálsi sem teygir sig meðfram Kleifarvatni hinu megin við og hurfu þeim sjónum. Þegar þeir frændur komu aftur niður að tjörninni sáu þeir för eins og eftir þófa, þrjá skálarlaga á hverjum af fjórum fótum.

Júlíus sem viðtöl voru tekin við í DV og Fjarðarpóstinum, lést árið 2017. Í minningargrein um hann er honum lýst sem traustverðum og sannsöglum manni.

En ef hann hefði viljað skálda upp svona sögu, þá mætti ætla að hann hefði frekar sagst hafa séð risaorm eða -skötu eins og sagt er frá í Ferðabók Eggerts og Bjarna, ekki tvö dýr sem líktust selum á sundi en hundum á stærð við hross komin upp á land.

Hann segir í viðtalinu við Fjarðarpóstinn að hann hafi alltaf gert grín að sögum um skrímsli og þess háttar fyrirbærum og því ekki hugsað sér að þetta kæmist í hámæli, en gat þó ekki stillt sig um að segja vini sínum frá sem var fréttaritari DV, og þar með var frásögnin komin í blöðin.

Sé sannleiksgildi þessara sagna frá bæði átjándu öld og þeirri tuttugustu ekki dregnar í efa, ef vitnin hafa í raun séð eitthvað líkt því sem það lýsir, og ef útilokaðar eru ævintýralegar skýringar eins og flakk í tíma eða milli vídda, þá er nærtækast að giska á að þarna gætu hafa verið á ferðinni einstaklingar af annars útdauðum tegundum forndýra.

Ástæða þess að engin bein hafi fundist af slíkum skepnum gætu verið að ormar í líkingu risavaxinna ánamaðka væru beinlaus lindýr og í skötum er brjósk en ekki bein. Bein varðveitast líka ekki mjög lengi nema við kjöraðstæður eins og þar sem er mjög þurrt, kalt eða súrefnislaust.

Útlitslýsing þeirra skepna sem rjúpnaskytturnar sáu minnir helst á hvernig fræðingar telja að forverar hvala hafi litið út, en þeir voru á stærð við íslenskan hest en litu svipað út og ofvaxnir merðir eða otrar.

Skrímslin í Kleifarvatni eru hætt að sjást jafn oft og þau gerðu á átjándu öld en þó er alveg þess virði að gera sér ferð á staðinn bara til að upplifa umhverfið og náttúruna.

Vænlegast til árangurs vilji einhver reyna að finna skrímsli í vatninu, sé það eða þau enn til staðar gæti verið að fara með neðanvatns dróna og kanna vatnið í kringum hverina sem eru á botninum. Það er rökrétt að ætla að mesta líf og æti sé þar að finna.

Meira andlega þenkjandi gætu reynt að skynja eða ná vitundarsambandi við þessar verur í hugleiðsluástandi. Góður staður til að taka hugleiðslu í góðu veðri er á rananum milli vatns og tjarnar þar sem dýrin fóru yfir, eða ofar öðru hvoru megin við vatnið í Vatnshlíð eða á Sveifluhálsi þaðan sem er gott útsýni.

Gamalt kort af Kleifarvatni - map.is
Kleifarvatn - map.is

Heimildir