Leyniblót í Goðdal

Goðdalur. Kaldrananeshreppur

Eins og sjá má á íslandskorti er Goðdalur í Bjarnarfirði mjög afskektur. Hann er á Vestfjörðum, landshluta sem margir ferðamenn sleppa alveg að skoða á hringferð um landið, og á fáförnum stað þess landshluta. Þangað liggur einungis einn vegslóði sem er ófær á vetrum, öllum nema stærstu bílum.

Goðdalur - map.is

Þetta svæði hefur frá fornu fari haft á sér orð fyrir fjölkynngi og eru margar sögur af galdrakörlum og seiðkerlingum þaðan. Miðpunktur og meginþungi galdraofsóknarinnar á sautjándu öld var í næsta nágrenni dalsins. Af þeim sem brenndir voru á báli fyrir galdra var undarlega hátt hlutfall frá Strandasýslu. En tenging við forneskju nær enn lengra aftur í tíma en það.

Fyrir utan að vera afskekkt bújörð þá hefur þar verið mjög harðbýlt, sérstaklega um vetur. Heimildir eru um að tvisvar hafi fallið snjóflóð í dalnum sem eyddi bæjum og eftir síðara skiptið 1948 lagðist jörðin í eyði. Þá létust sex heimilismenn. Bóndinn og ein dóttirin lifðu af en hún lést stuttu síðar og hann náði sér aldrei að fullu. Um það skrifar Jón Hjaltason í Árbók Ferðafélags Íslands frá 1952:

„En Goðdalur hefur fyrr verið vettvangur sorglegra viðburða og slysa. Er með nokkrum hætti sem yfir dalnum hvíli goðagremi, og vilji vættir landsins einir byggja staðinn.“

Sumir fræðimenn telja að í dalnum hafi heiðinn átrúnaður lifað í margar aldir eftir kristnitöku og þar er talið að hafi staðið hof. Þegar kristni var lögfest á Alþingi árið 1000 var áfram leyft að blóta gömlu guðina á laun. En kæmist það upp og væru einhver tilbúin til að bera vitni um það, var refsingin þriggja ára útlegð og menn réttdræpir færu þeir ekki af landinu í þann tíma. Ekki leið á löngu þar til þessi málamiðlun var úr sögunni og heiðni með öllu ólögleg.

Dalurinn er kenndur við Goða, fyrsta þekkta landnámsmanninn þar. Honum er lýst sem hraustmenni sem kom ekki vel saman við samtíðarfólk sitt. Hann fór í víking víða um lönd og varð ríkur maður, áður en hann settist að í þessum dal. Þegar hann fann dauða sinn nálgast safnaði hann öllum verðmætum í kistu sem hann er sagður hafa sökkt undir fossi í Goðadalsá sem heitir Goðafoss, og gengið þannig frá að enginn gæti fundið fjársjóðinn. Hann er svo sagður hafa verið heygður í skipi sínu neðarlega í Goðdal.

Hofið í Goðdal stóð á hól framarlega í dalnum. Eftir að heiðni varð ólögleg með öllu í landinu var það rifið og goðalíkneski tekin af stalli og hent í Goðafoss. Áfram hvíldi helgi eða álög á staðnum þar sem hofið stóð og mátti ekki hreyfa við neinu, annars hlytist illt af. Hóllinn var aldrei sleginn þó þar væri grösugt og ef skepnur fóru að færa sig inn á hann til beitar var eins og þær væru reknar í burtu af ósýnilegri hendi.

Seinna var byggt á hólnum og ein af heimildakonum, Ingibjörg Sigvaldadóttir, segir að þegar hún var ung hafi hún heyrt föður sinn ásaka þáverandi bónda í Goðdal um að hafa raskað friðhelgi rústanna á hólnum. Sá neitaði því og sagðist bara hafa mokað jarðlagi yfir þær og svo byggt nýjan bæ ofan á. Á þann bæ féll svo snjóflóðið 1948 sem lagði jörðina í eyði.

Rúmum áratug seinna var jörðin komin í eigu hjónanna Ingu Ingibjargar Guðmundsdóttur og Gunnlaugs Pálssonar, sem byggðu þar sumarhús á árunum 1960-1962. Grafinn var grunnur með ýtu og var sá háttur hafður á að taka til hliðar óvenjulega og athyglisverða steina.

Einn af þeim steinum sem þau veittu sérstaka athygli er í laginu eins og þriggja hliða píramídi, hver hlið um átján sentimetra. Sé honum snúið með breiðari endann upp má sjá skálalaga holu, um fimm sentimetra djúp og tuttugu sentimetra breið. Hún er greinilega manngerð því hún er mun sléttari en aðrir hlutar steinsins. Í skálinni má greina dökkar leifar af einhverju. Þessi steinn var settur til hliðar og gleymdist í mörg ár.

Árið tvö þúsund og tvö rákust þau hjónin aftur á steininn og höfðu samband við Jón Jónsson þjóðfræðing á Hólmavík. Í samráði við hann og forstöðufólk Galdrasýningarinnar á Ströndum var steinninn sendur til réttarmeinafræðinga hjá Lögreglunni í Reykjavík. Steinninn var sprautaður með efninu Luminol og fleiri rannsóknir gerðar sem leiddu í ljós að í skálinni voru leifar af dýrablóði sem ekki fundust annarstaðar á steininum.

Þessi niðurstaða styrkti grun um að hér væri kominn blótsteinn eða hlautbolli sem notaður hefði verið við trúarathöfn heiðinna þar sem dýrum var fórnað. Það var ekki hægt að aldursgreina blóðið og því ekki hægt að fullyrða um hvort hlautbollinn hafi verið notaður fyrir eða eftir kristnitöku.

Stærð steinsins gæti þó verið vísbending um að hann hafa verið notaður við ólögleg blót. Blótsteinar sem notaðir voru fyrir kristnitöku gátu verið mjög stórir, stundum voru þeir jarðföst björg úti í náttúrunni, en þessi steinn vegur einungis fimm kíló svo að auðvelt væri að fela eða ferðast með hann.

Fyrir þau sem vilja feta í fornar slóðir er Goðdalur í Bjarnarfirði einstakur áfangastaður. Dalurinn, með sína dulúð og áþreifanlegu tengingu við heiðinn sið, er verðugur áfangastaður nútíma ásatrúarfólks. Mikilvægt er þó að sýna staðnum og sögu hans virðingu og hafa í huga að landið er í einkaeigu, því er sjálfsagt að leita leyfis landeigenda fyrir heimsókn eða athöfn. Einnig er rétt að árétta að dýrafórnir heyra sögunni til og slátrun dýra er háð ströngum lögum og reglum.

Fyrir hin sem eru forvitin en síður gefin fyrir pílagrímsferð í afskekktan dal, þá er hægt að berja sjálfan blótsteininn augum á Galdrasýningunni á Hólmavík, þar sem hann er til sýnis ásamt fjölda annarra dularfullra sýningargripa.

Heimildir