Miklubrautarbrottnámið
Eins og víðast hvar í heiminum eru FFH, fljúgandi furðuhlutir, vel þekkt fyrirbæri á Íslandi. Flestir þekkja einhvern sem hefur séð á himni eitthvað óþekkt og undarlegt. Frásagnir af slíku rata þó sjaldan í fjölmiðla og yfirleitt ekki nema mynd náist af fyrirbærinu.
Það eru fáir staði á landinu sem eru þekktir fyrir að þar sjáist FFH oft, en þeir eru þó til. Má þar helst nefna Snæfellsnes og Kambana hjá Hveragerði. Frá Reykjavík er líka þó nokkuð til af tilkynningum um það og þaðan er eina þekkta íslenska sagan um brottnám og horfinn tíma af völdum FFH.
Aðfaranótt fimmtudagsins 10. ágúst 1995 ákvað sautján ára par úr austurbæ Reykjavíkur að fara í smá bíltúr. Kannski voru þau ekki tilbúin að fara í háttinn strax þegar dagskrá Stöðvar 2 lauk klukkan eitt, og þótti gaman að keyra, nýlega komin með bílpróf. Það hafði verið rigning og súld um daginn en búið að stytta upp að mestu, með skúrum öðru hverju.
Stuttu áður en þau koma að gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar, á leiðinni í austur, verður þeim litið á klukkuna og sjá að hún er orðin hálf tvö. Þau ákveða þá að halda heim því bæði þurfa að vakna í vinnu daginn eftir.
Svo stoppa þau á gatnamótunum á rauðu ljósi. Þar sem þau eru ein að bíða eftir umferðarljósunum í rigningaskúr, skín allt í einu niður á bílinn sterkt ljósi og á sama tíma heyra þau mikinn dynk. Þeim bregður við og stúlkan sem var við stýrið gefur í og keyrir yfir gatnamótin. Engan annan bíl var að sjá og ekki nein flugvél eða þyrla sem ljósið gæti hafa lýst frá. Þá taka þau eftir að hálftími er liðinn frá því þau litu á klukkuna síðast, þó þeim finnist sjálfum að ekki hafi liðið meira en hálf til ein mínúta. Pilturinn tekur líka eftir að það var hætt að rigna.
Á leiðinni heim og daginn eftir ræddu þau fram og til baka um þessa undarlegu reynslu og stúlkan ákveður fjórum dögum seinna að hafa sambandi við FÁFFH, Félag áhugamanna um fljúgandi furðuhluti, til að láta vita af þessu og leita mögulegra skýringa. Þá var henni enn í fersku minni viðtal við stjórnarformanninn sem birst hafði á Stöð 2 kvöldið fyrir atburðinn, auk þess sem hún hafði setið fyrirlestur um álíka mál hálfu öðru ári fyrr.
Þeim var vel tekið og atvikinu sýndur mikill áhugi. Í næsta fréttablaði félagsins, Geimdisknum, birtist frásögn þeirra. Morgunblaðið og Tíminn endurbirtu hana auk þess sem DV fékk samband við stúlkuna, og tók viðtal við formanninn. Hann auglýsti eftir vitnum og fram kemur fram að stúlkan hafi fundið rauða díla á öðrum handleggnum, eftir að parið hafi leitað að merkjum á líkama sínum að hvatningu formannsins.
Tæpum þremur mánuðum síðar er sagt frá því í næsta eintaki Geimdisksins, og sömuleiðis í Morgunblaðinu, að vitni búsett á Kjalarnesi hafi séð ljósagang yfir Háaleitishverfinu sömu nótt og á sama tíma og atvikið gerðist. Þá er þess líka getið að verið sé að leita að dávaldi sem geti dáleitt táninganna til að reyna að leiða í ljós hvað hafi gerst á þessum hálftíma sem horfinn var úr minni þeirra.
Frásögn parsins unga á margt sameiginlegt með frásögnum um brottnám af völdum FFH. Í bókinni Missing Time eftir Budd Hopkins er tekin saman dæmigerð lýsing á svona atburði. Parið man að vísu ekki eftir að hafa farið um borð í neinskonar geimfar, eða hafa séð geimverur en það sem er sameiginlegt með fjölda álíka frásagna, er að þau eru ung, í bíl, sjá skært ljós, heyra undarlegt hljóð og missa úr tíma. Formanni félagsins þótti brottnám líklegasta skýringin og að þau hafi verið ljós-soguð upp úr bílnum úr mikilli hæð.
Þegar skoðaðar eru mögulegar útskýringar á þessum atburði og upplifun táninganna þá er hægt að velja útgangspunkt á skala sem nær frá því einfalda og trúverðugasta yfir til þess flóknasta og ótrúlegasta. Einfalda skýringin, sem er samt ekki svo einföld því margir þættir koma þar saman, gæti verið eftirfarandi:
Unga parið var þreytt og syfjað þar sem þau biðu á umferðarljósunum eftir að skipti úr rauðu í grænt. Þá hefur komið rifa á skýjahuluna og fullt tunglið, eins og það var þessa nótt, skein niður á bílinn í gegnum rigningaskúrinn. Hvernig tunglið endurkastaðist af regndropunum og blautu malbikinu gæti hafi látið þeim virðast sem skært ljós lýsti niður á þau. Á sama tíma heyrðist dynkur í bílnum, en hann gæti hafa verið gamall eins og fyrsti bíll nýrra ökumanna oft er.
Útskýringin á tímamuninum gæti verið að þau hafi horft á sitthvora klukkuna sem hálftíma skeikaði á, t.d. í mælaborði bílsins annarsvegar og armbandsúr eða farsíma hinsvegar. Rauðu blettirnir sem stúlkan fann á handlegg hafa stafað af einhverju ótengdu og ljósin sem sáust af vitni frá Kjalarnesi hefur líklega verið hin árlega Persíta loftsteinadrífa sem er að ná hámarki um þetta leiti og var sérstaklega öflug þetta ár.
Önnur útskýring á hinum horfna tíma og tilfinningu þeirra að eitthvað undarlegt hafi gerst, gæti verið að þau hafi í raun fallið í dá. Verið dáleidd af umhverfi og aðstæðum. Þegar fólk er dáleitt beita dávaldar þeirri tækni að fá fólk til að einbeita sér eða fókusa á eitthvað og gera svo eitthvað óvænt til að færa það í trans. Klassískt dæmi er dávaldur sem fær viðfang til að einbeita sér að sveiflandi vasaúri og smellir svo fingri.
Unga fólkið var syfjað og fókusað á umferðaljósið undir taktföstum slættinum í rúðuþurrkunum, þegar það gerist óvænt og á sama tíma að skært tunglsljósið lýsir upp bílinn og hávær dynkur heyrist. Við það hafa þau mögulega fallið í hálftíma langt dá sem þau muna svo ekki eftir.
Á hinum enda útskýringaskalans er að verur frá annarri plánetu voru þarna á ferð, sem hafa mögulega dulist í áðurnefndri loftsteinadrífu. Þær voru kannski í einhverskonar rannsóknar- eða vísindaleiðangri og þær hafa dáleitt ungmenninn eða þurrkað úr minni þeirra þegar tekið var úr stúlkunni blóð eða lífsýni sem útskýri rauðu blettina. Ýmist hefur það verið gert á staðnum eða eftir að þau voru færð um borð í hið fljúgandi farartæki. Reyndar er ekkert í frásögn táninganna um að þau hafi verið færð út úr bílnum og er sú viðbót frá formanni FÁFFH komin.
Ári áður sáu meira en sextíu skólabörn í Rúanda skært ljós á lofti við skólann, sáu geimdisk lenda skammt frá og verur koma úr honum. Sum þessarra barna sögðust hafa misst úr tíma. Tveimur árum eftir atvikið á Miklubraut urðu þúsundir manna vitni að stóru V-laga farartæki eða skærum ljósum líða hljóðlaust yfir Phoenix borg í Bandaríkjunum og sum sögðust sömuleiðis hafa misst úr tíma. Þessi atvik eru bæði fræg í sögu FFH frá tíunda áratugnum.
Þarna á milli á þessum skala, er pláss fyrir eina útskýringu til. Sem er að manneskjur í gervi FFH hafi valdið þessu. Allir armar bandaríska hersins eru með deild helgaða sálfræðilegum hernaði, á ensku Psychological Operations, skammstafað Psy-Ops. Miðnesheiði þar sem bandarísk herstöð var frá 1951 til 2006, er í tæplega fjörtíu kílómetra beinni fluglínu frá umræddum gatnamótum. Tilgangurinn með þessum afskiptum hefði þá verið æfing eða aðgerð ætluð til þess að styrkja trú fólks á FFH, svo fyrirbærið gæti nýst seinna, eða áfram, sem yfirvarp í njósna leiðöngrum og innrásum.
Þannig aðgerð hefði verið ólögleg, siðlaus og getað valdið milliríkjadeilum ef upp um kæmist, en eins og saga Bandarískra leyniþjónustna sýnir þá hafa þær ekki alltaf látið slíkt stoppa sig, nægir þar að nefna MKUltra, víðtækt tilraunaverkefni þar sem CIA rannsakaði leiðir til hugsunarstjórnunar, á eigin borgurum og kanadískum.
Ef etthvað hefði farið úrskeiðis í þannig aðgerð, þá hefðu ekki getað verið við völd vinveittari stjórnmálaflokkar. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn voru þá að reyna að halda herstöðinni opinni eins lengi og hægt væri, en tal um að loka henni var farið að heyrast vestanhafs.
Svo vill til að stuttu eftir að atvikið gerðist kom til landsins leikstjóri bandarísku sjónvarpsþáttanna Rescue 911, á leið að gera þátt um björgun úr sprungu á Snæfellsnesjökli. Hann lenti þremur dögum eftir atvikið, en mögulega voru einhver úr hinum stóra tökuhópi komin á undan með allann búnaðinn og upplagt hefði verið fyrir sálfræði hermenn að leynast þar með sínum tækjabúnaði.
Ekki er vitað um afdrif táninganna því þau hafa alla tíð haldið nafnleysi sínu eins og FÁFFH lofaði öllum sem myndu senda þeim tilkynningu. Hver sem skýringin er á upplifun þeirra þá hafði hún mikil áhrif á þau og var allavega fyrir þeim mjög raunveruleg.
Vonandi var það bara tunglið sem dáleiddi unga parið og rændi hálftíma úr lífi þeirra, en ekki geimverur að safna lífsýnum eða hugsanastjórnendur á vegum hersins.
Heimildir
- Ariel School UFO incident. Wikipedia>
- Ágúst. Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags 1995
- Brottnám á Miklubraut. Geimdiskurinn, ágúst 1995.
- Geimverur sagðar hafa numið ungt par á brott. Morgunblaðið, 16. ágúst 1995
- Keflavíkurstöðin. Wikipedia
- Missing Time (1981). Budd Hopkins
- MKUltra. Wikipedia
- Perseids. NASA
- Phoenix Lights. Wikipedia
- Psychological warfare. Wikipedia
- Segja geimskip hafa skollið á bílinn. Tíminn, 16. ágúst 1995
- Stúlkan með rauða díla á handleggnum. DV, 17. ágúst 1995
- Unidentified Flying Object. Wikipedia
- Vitni gáfu sig fram að Miklubrautarbrottnáminu. Geimdiskurinn, nóvember 1995
- Vitni gáfu sig fram. Morgunblaðið, 11. nóvember 1995
- Það flóknasta sem við höfum myndað. DV, 13. ágúst