Reynistaðarbræður

Kjölur. Bláskógabyggð

Laugardaginn 28. október 1780 lögðu tveir ungir bændasynir ásamt þremur vinnumönnum af stað upp á hálendið með hóp tvö hundruð sauðfjár og sextán hesta. Ætlunin var að reka hópinn frá Suðurlandi, yfir Kjöl sem er svæði milli Langjökuls og Hofsjökuls, norður til Reynistaða í Skagafirði. Margir vöruðu þá við að reyna að fara þessa leið á þessum árstíma, en þeir afþökkuðu boð um vetrardvöl. Daginn eftir skall á stórhríð sem stóð í marga sólarhringa.

Kjölur - map.is

Sauðféð sem þeir ráku var ætlað til að endurreisa fjárstofn foreldra þeirra, en það hafði allt verið skorið niður vegna fjárkláða. Þeir voru af gömlum höfðingjaættum í báðar ættir, Halldór faðir þeirra var hafði umboð fyrir og sá um jarðir Reynistaðarklausturs í nafni konungs og fæddur til auðæfa, en vegna fjárkláðans og lélegs árferðis var mjög farið að ganga á þann auð.

Eldri bróðirinn Bjarni Halldórsson Vídalín sem var um tvítugt samkvæmt flestum heimildum, en sumstaðar sagður fjórtán, hafði verið sendur um mitt sumar ásamt verkstjóranum Jóni Austmann, með silfur og peningaseðla til þess að kaupa ósýkt sauðfé á suður og austurlandi. Einar sem var ellefu ára var sendur seinna ásamt vinnumanni til að hjálpa við reksturinn norður. Einar hafði sárbeðið Ragnheiði móður sína um að þurfa ekki að fara en þegar hún stóðu hörð á því, kallaði hann saman leiksystkini sín til að kveðja og skipta á milli þeirra leikföngum sínum.

Sú tilgáta hefur verið sett fram að ástæðan fyrir því að hann var sendur svo ungur var í von um að vinir föður hans myndu gefa honum sauðfé eða vera viljugri til að selja það, en vegna fjárkláðans var mikil eftirspurn eftir ósýktu sauðfé.

Þeir höfðu orðið að ferðast langt til að kaupa féð og urðu að bíða þar til eftir réttir til að fá mikið af því afhent. Þessvegna seinkaði ferð þeirra til baka. Bjarni sem var nemi við Hólaskóla hafði athugað hvort hann gæti verið veturinn við Skálholtsskóla til að útskrift hans myndi ekki tefjast en lent í deilum við skólameistara. Ef til vill vegna þess að skólameistarinn vildi ekki meta námið við Hólaskóla til jafns við Skálholtskóla. Líklega var það ein ástæðan fyrir því að Bjarni var ákveðinn í að halda norður þrátt fyrir aðvarinar. Einnig getur verið að hann hafi viljað spara fjölskyldunni að þurfa að borga fyrir vetrarfóðrun. Jón Austmann sem réði þessu líka, og var lýst sem hörðum og óvægnum manni, gæti líka hafa haft sínar ástæður fyrir að vilja ekki ílengjast fyrir sunnan. Svo af stað fóru þeir og við hópinn bættist unglingspiltur sem ráðinn var til ferðarinn með möguleika á vinnumennska fyrir norðan.

Það voru litlar sem engar samgöngur á milli landshluta á vetrum og engar fréttir bárust af því hvort eða hvenær leiðangurinn hefði lagt af stað. Búist hafði verið við þeim til baka um haustið en eftir því sem líða tók á veturinn fór fólkið á Reynistöðum að verða sífellt áhyggjufyllra.

Hjá leiguliðanum Jóni að Hryggjum tók nú að bera á draugagangi og fannst honum þar kominn Jón Austmann sem hann hafði átt í illdeilum við. Kona hans varð líka vör við Austmann sem sá um að innheimta leigu af leigujörðum sem Halldór Vídalín hafði umsjón með og þótti ganga hart fram við það.

Það orð fór af Jóni að Hryggjum að hann væri skyggn og móðir drengjana spurði hvað hann héldi um afdrif leiðangursins þegar þau hittust í kirkju. Hann svaraði að hann teldi Jón Austmann vera kominn til andskotans en um hina vissi hann ekki. Í sömu kirkjuferð fannst honum hann sjá bræðurnar í hnipri inni í einu af herbergjum kirkjunnar og taldi þá víst að þeir væru allir, en minntist ekki á það við móðurina.

Systir þeirra Björg dreymdi vísu sem hún mundi þegar hún vaknaði og varð landsþekkt:

Enginn finna okkur má
undir fanna hjarni.
Dagana þrjá yfir dauðum ná
dapur sat hann Bjarni.

Það var ekki veður til að gera út leitarmenn fyrr en stuttu fyrir jól þegar veður varð stillt og harðfenni á jörðu. Þá riðu tveir menn suður og fengu þær fréttir að leiðangurinn hefði lagt af stað norður fyrir löngu síðan. Þeir flýttu sér til baka og sáu ekkert til hópsins nema um tuttugu kindur sem þeir ráku nær byggð. Svo versnaði veðrið aftur og kom í veg fyrir frekari leit.

Það spurðist að um veturinn höfðu menn við eftirleit heyrt undarleg hljóð eða köll á ferð um Kjöl en ekki kannað það frekar, mögulega vegna ótta við drauga eða útilegumenn.

Nokkrar kindur af fé Reynistaðarmanna komu niður í byggðir þann vetur og sömuleiðis fjárhundur þeirra. Snemma um vorið þegar verið var að safna hrossum saman í rétt til að raka þá eftir veturinn kom graðhestur úr leiðangrinum hneggjandi að réttinni. Halldór, faðir bræðranna varð vitni að því og varð svo um að hann lagðist í rúmið í viku.

Loks fann bóndi einn tjald leiðangursmanna í Kjalhrauni, taldi hann að í því hefðu verið fjögur lík en aðrir sem með honum voru sögðu þrjú. Jón Austmaður var þar ekki. Mikil nálykt var í tjandinu svo hann og samferðamenn hans skoðuðu ekki meira inn í það heldur hlóðu grjóti á jaðra tjaldsins og merktu staðinn.

Bóndinn, Tómas frá Flugumýri, fór til Reynistaða til að tilkynna um fundinn og gerður var út hópur til að sækja líkin og bera þau til byggða. Tómas fór með til að vísa á staðinn. En þegar þeir komu til baka voru lík bræðranna ekki þar.

Engin verðmæti voru í tjaldinu en eins og síðar kom fram hafði eldri bróðirinn Bjarni borið á sér peningaveski með því sem ekki var notaður til fjárkaupa. Af ummerkjum að dæma virtust tjaldbúar hafa lifað um tíma á hráu kindakjöti því við tjaldið lá nokkuð af beinum. Talið var að þarna höfðu þeir orðið að stoppa og Jón Austmaður freistað þess að komast til byggða til að ná í hjálp.

Hestur Jóns Austmanns fannst síðar dauður í kvísl við Blöndu og var talið að hann hefði fallið þar niður og Jón ekki náð hestinum aftur upp. Hnakkur og reiðtygi lágu þar hjá á þúfu og hafði hesturinn verið skorinn á háls og hausnum stungið undir bóginn. Einhverjum árum seinna fannst við á öðrum stað við ánna mannshönd í vettlingi með fangamarki Jóns og árið 2010 fannst brot úr höfuðkúpu manns á sömu slóðum.

Halldór skrifaði mörgum nærsveitungum og bað þá um að hjálpa sér að leita að bræðrunum, og héldu margir úr Skagafirði suður á Kjöl til að taka þátt en urðu einskis vísari. Um svipað leiti dreymdi Jón á Hryggjum að Einar litli kæmi til hans og kvæði þessa vísu:

Í klettaskoru krepptir erum við báðir.
En í tjaldi áður þar
allir vorum félagar.

Foreldrum bræðranna þótti sárt að lík þeirra skildu ekki finnast og efndu til margra leitarferða næstu ár og spöruðu ekki kostnað. Þau héldu líka uppi spurnum um mannaferðir um Kjöl um svipað leiti og tjaldið fannst, og komust að því að þrír menn hefðu átt leið stutt frá staðnum á þeim tíma. Hafði einn af þeim tekið þátt í leit snemma um vorið. Grunur féll á þremenningana um að þeir hefðu rænt lík bræðranna án þess að vita að búið væri að finna tjaldið, og svo falið þau til að láta líta út fyrir að bræðurnir hefðu horfið með peningana á sér.

Mál var höfðað gegn þeim, mörg þing og réttarhöld haldin, mörg vitni kölluð til og jafnvel fenginn fjölkunnugur maður til að reyna að finna bræðurna og ná fram játningu með göldrum en ekkert dugði. Þeir voru sýknaðir því sök þeirra þótti ekki sönnuð og dæmdur synjunareiður, þ.e. að þeir gátu fengið að sverja að þeir væru saklausir.

Foreldrar bræðranna vildu ekki una þessum dómi og áfríuðu til Alþingis. Málið dróst á langin en fimm árum seinna var dómur héraðsdóms staðfestur af amtmanni. Einn af þeim var þá látinn en hinir tveir sóru aldrei eiðinn af einhverjum ástæðum. Þeir kærðu á móti og gerðu þá kröfu að fá sárabætur frá Halldóri Vídalín fyrir ákæruna og þau óþægindi sem því hefði fylgt, en það mál var fellt niður.

Nær sjötugu árum og tveimur ættliðum seinna bárust svo fréttir frá Kili til bróðurdóttur þeirra bræðra sem þá bjó á Reynistað, að fundist hefðu mannabein. Þau voru nokkuð langt frá tjaldstæðinu undir grjóti og steinhellum og þótti ólíklegt í fyrstu að þau væru af bræðrunum og ekki sótt fyrr en fimm árum seinna. Læknir rannsakði þau og taldi vera af einstaklingum á sama aldri og bræðurnir, síðar hefur sú niðurstaða verið dregin í efa af sumum. Beinin voru samt að lokum jarðsungin undir nafni bræðranna.

Örlög Reynistaðarmanna höfðu það mikil áhrif að eftir þetta lögðust ferðir um Kjalveg niður að mestu í meira en hundrað ár, en hafði áður verið aðalleiðin milli Suður- og Norðurlands. Atburðurinn hefur fylgt Reynistaðarættinni og meðal annars komið fram í þeirri hjátrú að karlar sem henni tilheyrði mættu ekki klæðast grænu eða ríða bleikum hesti eins og eldri bróðirinn, en reyndar var hann ekki í neinum grænum fötum samkvæmt vitnisburði í réttarskjölum. Þá var því líka trúað og skrifað um að þunglyndi fylgdi ættinni sem var rakin til sorgar og sektarkenndar sem foreldrar bræðranna fundu fyrir yfir því að senda þá í þessa ferð og þá sérstaklega þann yngri.

Um fá sakamál hefur verið jafn mikið skrifað á Íslandi enda líkránsmál sérstaklega óhugnanleg og mjög sjaldgæf. Margar kenningar hafa verið settar fram með mismunandi forsendum. Til að mynda að aldrei hafi verið fleiri en tvö lík í tjaldinu, þau hafi verið undir ábreiðum og þeir sem fundu tjaldið ekki getað eða viljað athuga það betur. Eða að einhver hafi falið lík bræðranna til að skaprauna foreldrunum. Eða að Jón Austmann hafi drepið bræðurnar og stungið af með verðmæti og hluta sauðfjársins og ætlað að ganga til liðs við útilegumenn.

Orðið hefur vart við undarlega skugga á Kili, sem ef til vill tengjast leiðangrinum. Þeir skuggar falla á tjöld og allir sjá sem inni í þeim eru, og hafa á sér greinilega mannsmynd. En þegar út úr tjaldinu er komið þá er þar ekki neinn.

Heimildir