Rómversku peningarnir

Bragðavellir, Múlaþing

Á Austfjörðum hafa fundist þrír rómverskir koparpeningar. Tveir nálægt bænum Bragðavöllum í Hamarsfirði, í rústum bæjar sem er talinn hafa verið frá landnámsöld og einn fannst um 25 kílómetrum sunnar, á söndunum milli Hvalsness og Krossaness. Fundur rómverskrar myntar af þessari tegund er mjög sjaldgæfur á Norðurlöndum enda höfðu þeir ekkert verðgildi vegna lítils silfurinnihalds.

Djúpibotn

Álíka koparpeningar hafa aðalega fundist í fornleifauppgröftum á fyrrum yfirráðasvæðum Rómar, en á Norðurlöndum hafa nær eingöngu fundist rómverskir peningar úr silfri og gulli.

Meira en þúsund árum áður en Ísland var numið af norrænum mönnum sigldi gríski landkönnuðurinn Pýþeas um Norður-Atlantshaf og lýsti eyjunni Thule eða Thile sem margir telja að sé Ísland. Rómverjar þekktu þessi skrif og hafa því vitað af þessari eyju þegar veldi þeirra náði til Bretlands, sex öldum eftir að gríski sæfarinn ritaði frásögn sína.

Í tímaröð eftir fundi rómversku peninganna, þá fannst sá fyrsti af þessum þremur árið 1905 af bóndanum Jóni Sigfússyni, í Djúpabotni stutt frá bænum Bragðavellir í Hamarsfirði þar sem voru bæjarrústir frá tíma landnámsins, en þær eru nær algerlega horfnar í dag vegna uppblásturs. Á þessu svæði fór Jón bóndi að finna fornleifar í uppblæstrinum. Fyrst stein með gati og seinna hálfa rauða glerperlu úr hálsfesti. Svo þennan pening, járnbrot og pottbrot úr tálgusteini, líklega norsku. Áfram héldu svo að finnast þarna forngripir öðru hvoru eins og perlur og litaðir smásteinar. Peningurinn sem fannst þetta ár er frá tímum Probusar sem var keisari yfir Róm 276-282. Honum er lýst sem ekki vel kringlóttur, tæplega 2 sentímetrar í þvermál og töluvert eyddur.

Annan peninginn fann enskur kennari að nafni Leonard Hawkes árið 1923, í uppblæstri á söndunum úti fyrir mynni Hvaldals, milli Krossaness og Hvalsness. Sá peningur er frá dögum Diocletians keisara sem ríkti frá 284 til 305. Hann er um 2,5 sm í þvermál og á honum er sumt af letrinu orðið ólæsilegt.

Þriðji peningurinn fannst sömuleiðis af Jóni bónda 1933, 28 árum eftir að hann fann þann fyrsta. Sú mynt er frá tíma Aurelians keisara sem ríkti árin 270-275 og er 2 sm í þvermál, sumt af letrinu eytt, en hægt að vita hvað stóð með samanburði við aðra peninga sem fundist hafa erlendis.

Peningar af þessari tegund eru kallaðir antoninianar, eftir keisaranum sem fyrst lét slá svona mynt, Marcus Aurelius Severus Antoninus (188-217), betur þekktur undir viðurnefni sínu Caracalla. Þeir voru í fyrstu úr silfri en stöðugt var farið að blanda í þá ódýrari málmum svo að undir lok þriðju aldar voru þeir orðnir að koparpeningum með smá silfurblæ.

Helstu útskýringar á tilstaðarveru rómversku koparpeninganna á Íslandi, eru aðallega fjórar og verður nú farið yfir þá möguleika í öfugri tímaröð og byrjað næst okkur í tíma.

Fyrsta tillagan sem sett hefur verið fram er að um hrekk eða fölsun sé að ræða. Að peningunum hafi verið komið fyrir af þeim sem sögðust hafa fundið þá. Er það frekar ólíklegt. Fundarmennirnir höfðu ýmist ekkert að græða, eða allt að tapa með því að standa í slíku og er þar vísað til orðspors þeirra. Jón bóndi Sigfússon bjó við miki harðindi á Braðgavöllum, í ónýtu húsi og mjög veikur það ár sem hann fann fyrri peninginn, samt reyndi hann ekki á neinn hátt að hagnast á fundinum. Hans áhugasvið var líka meira jarðfræði heldur en sagnfræði og líklegt að hann hefur fundið peningana þegar hann var að sinna því áhugamáli. Kennarinn enski var líka sagður mjög grandvar maður, ekki þekktur fyrir neinskonar hrekki og átti síðar eftir að ná nokkrum frama innan síns fræðasviðs.

Önnur tillagan er að írsku einsetumunkarnir sem voru á landinu þegar norrænir menn komu samkvæmt Landnámu hafi flutt peningana með sér. En það verður að teljast ólíklegt því munkarnir forðuðust peninga að helgra manna sið. Svona rómverskir koparpeningar voru þar að auki mjög fágætir á Írlandi sem var aldrei lagt undir Róm.

Þriðja tillagan er að norrænir landnámsmenn hafi flutt myntina með sér. Þetta er sú skýring sem íslenskir fornleifafræðingar telja í dag líklegasta, Dr. Kristján Eldjárn, síðar forseti Íslands, skrifar í bók sinni Gengið á reka að honum finnist líklegast að Rómverjar hafi komið með peningana sjálfir, en síðar er hann sagður hafa bakkað með þá tilgátu. Eins og hann skrifar þá hefði það samt verið undarlegt fyrir landnámsmenn að flytja með sér verðlausa peninga. En kannski voru þetta minjagripir, eða einhver hafi verið plataður til að taka við þeim sem skiptimynt, eins og stungið hefur verið upp á. Þó að slíkir peningar hafi sjaldan fundist á Norðurlöndum þá er mikið af þeim á Bretlandi.

En þó að tveir af þessum þremur peningum hafi fundist í húsarústum og innan um fornminjar sem eflaust eru frá landnámsöld, þá þýðir það ekki endilega að landnámsfólkið hafi komið með þá. Mögulega fann það peningana eftir komuna til landsins, líkt og herra Hawkes gerði þúsund árum síðar.

Fjórði möguleikinn er að peningarnir hafi komið með rómverjum til landsins. Á þeim tíma sem myntin var slegin var Bretland undir rómverskum yfirráðum, hafði verið það frá árinu 42 og var það áfram fram á 5. öld. Oftast undir beinu valdi keisarans í Róm, en um tíma á valdi hershöfðingjans Carausius sem gerði uppreisn, lagði Bretland og Gaulverjaland undir sig og lét útnefna sig keisara norðursins, en þá hafði Rómarveldi þegar skipts í austur og vestur.

Á þessum tíma voru gerð út rómversk herskip frá bæði Frakklandi og Bretlandi til að elta uppi sjóræningja og tryggja öryggi verslunarleiða, og þannig komst Carausius upprunalega til metorða. Peningarnir þrír voru í umferð á hans tíma og það er mögulegt að rómverskt skip hafi hrakist í stormi frá hafsvæðinu norðvestur af Bretlandi til Íslands. Rétt eins og Hollenska gullskipið sem strandaði á Skeiðarársandi mörgum öldum seinna.

Annar möguleiki er að farið hafi verið í landkönnunarleiðangur vegna skrifa gríska landkönnuðarins. Kannski var uppreisnarkeisarinn Carausias að útbúa varaplan ef svo færi að hann yrði hrakinn frá Bretlandi og hafði heyrt um eyjuna í norðri sem Pýþeas uppgötvaði. Myntirnar gætu þá hafa verið hluti af stærri sjóð sem tekinn var með í þeim tilgangi að koma af stað rómversku hagkerfi á nýjum stað. Eins og rómverjar gerðu allstaðar þar sem þeir komu.

Hvort sem var fyrir slysni að rómversk skip barst mögulega til Íslands eða ekki þá gæti það hafa farist úti fyrir Austfjörðum, og þessi rómverska smámynt verið það eina sem var bæði nógu létt til að reka upp í fjöru í stórviðri, og nógu endingargott til að finnast niðurgrafið í ströndina á landnámsöld sex hundruð árum síðar og aftur, níu hundruð árum eftir það.

Hver sem skýringin er, þá er það ráðgáta hvernig þessir rómversku peningar rötuðu til landsins og er hér tilfelli þar sem það væri klárlega mikill kostur að vera gæddur hæfileika til hlutskyggni.

Hamarsfjörður - map.is

Heimildir