Sæmundur fróði
Sæmundur Sigfússon, hinn fróði, fæddist árið 1056 og varð ættfaðir Oddaverja, einnar af merkustu höfðingjaættum Sturlungaaldar. Hann var mikilsvirtur klerkur og fræðimaður, áhrifamikill innan kirkjunnar og ráðgjafi biskups. Hann er líka þekktasti galdramaður Íslands sem sögur fara af.
Það gæti virst mótsagnakennt að prestur sé galdramaður en það er ekki einsdæmi, hvorki á Íslandi eða meginlandi Evrópu. Hvort sem það var á þessum tíma, stuttu eftir kristnitöku eða síðar. Í íslenskum þjóðsögum eru fleiri prestar sem einnig voru galdramenn en Sæmundur fróði er sá elsti.
Það kann líka að virðast undarlegt að kaþólskur prestur eins og Sæmundur var, skyldi verða ættfaðir. En á þessum tíma var það ekki ennþá algert skilyrði páfa að prestar væru einhleypir og átti hann þrjá syni og eina dóttur.
Það er ekki vitað hvað Sæmundur var gamall þegar hann fór til náms í Evrópu en það hefur verið milli fermingar og tvítugs. Þjóðsagan segir að ytra hafi hann lært galdra í Svartaskóla þar sem djöfullinn sjálfur var skólastjóri, og þurft að beita galdrabragði til að sleppa þaðan að námi loknu. Sagan af flótta hans er upprunalega frönsk þjóðsaga þar sem Gerbert frá Aurillac, sem síðar varð Sylvester páfi annar, sleppur frá serkneskum kennara sínum eftir að hafa stolið frá honum forboðinni bók.
Oftast þegar fjallað er um hinn sögulega Sæmund fróða og orðspor hans sem galdramaður, þá er það afgreitt með því að segja að allir menntamenn á þessum tíma hefðu verið álitnir göldróttir. En það er ekki svo einfalt og býr meira að baki.
Líklegast er að Sæmundur hafi numið í Frakklandi og mögulega við fleiri en einn skóla eins og námsmenn byrjuðu að gera á þessum tíma. Það er öruggt að hann hefur lært lög og kirkjurétt, bókmenntir, stjörnufræði, latínu, rökfræði og líklega náttúrufræði og læknisfræði sömuleiðis. Þar sem hann stundaði nám í frönsku klaustri hefur ekki verið langt að sækja fyrirmynd að fræðimanni sem einnig var kirkjunnar þjónn og orðaður við galdra.
Það er áðurnefndur Gerbert frá Aurillac, sem tók nafnið Sylvester þegar hann var kosinn páfi. Hann lifði einni öld á undan Sæmundi og af honum fór mikið galdraorð. Sagt var að myrkrahöfðinginn hefði hjálpað við að tryggja honum embætti. Það er mögulegt að Sæmundur hafi lært hjá kennara sem lærði hjá kennara, og þannig aftur til Gerbert sjálfs.
Það er mjög ólíklegt að Sæmundur fróði hafi ekki kynnt sér það sem í dag er kallað dulspeki eða galdur. Hann hefði ekki staðið undir viðurnefni sínu hefði hann ekki gert það og þessum tíma var tilvist galdra og þess yfirnáttúrulega viðurkennd staðreynd.
Úti dvaldi Sæmundur lengur en ætlunin var eða í átta ár og mögulega hefði hann ekki snúið aftur til Íslands ef ekki hefði verið fyrir æskuvin hans Jón Ögmundsson sem leitaði hann uppi og sannfærði um að koma heim. Þá var Sæmundur orðinn svo villtur að hann mundi ekki eigið nafn segir í þjóðsögu.
Í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar, í Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar og víðar eru margar sögur um Sæmund og hann er helst þekktur þaðan. Það eru þó ekki einungis þjóðsögurnar sem eru til heimildar um að Sæmundur hafi verið gæddur yfirnáttúrulegum hæfileikum því í Hungurvöku, sem skrifuð var um fyrstu fimm biskupa landsins, er Sæmundar getið. Þar er hann sagður forvitri, sem þýðir að sjá fyrir um óorðna hluti, vera draumspakur eða dulskyggn.
Í Biskupa sögu Jóns Ögmundssonar, fyrsta Hólabiskups, stendur að Sæmundur hafi verið góður í stjörnufræði, sem á miðöldum var það sama og stjörnuspeki. Það er því óhætt að segja að Sæmundur fróði hafi allavega verið stjörnuspekingur.
Áður en hann varð páfi ferðaðist Gerbert af Aurillac til Spánar og lærði þar meðal annars hjá arabískum kennurum sem kenndu honum að lesa á arabísku. Flest, ef ekki öll vísindi við upphaf miðalda bárust til Evrópu frá íslamska menningarsvæðinu sem Spánn tilheyrði að hálfu. Má nefna stærðfræði, efnafræði, læknisfræði og stjörnufræði. Gerbert, orðinn Sylvester páfi annar, skrifaði um arabísk vísindi og stuðlaði að því að arabískur fræðitexti væri þýddur á latnesku.
Íslamskir fræðimenn varðveittu lærdóm Forn-Grikkja og Rómverja, sem gleymdist í Evrópu eftir fall Vestur-Rómverska keisaraveldisins. Meðan hin íslamska gullöld stóð var þar líka safnað fræðum frá Kína, Egyptalandi og fleiri löndum. Frá þeim svæðum bárust dulspekihefðir, blönduðust staðbundnum útgáfum og þar voru til skólar og miðstöðvar sérstaklega helguð þeim.
Fyrir utan þessi fræð voru það líka bókmenntaleg áhrif sem bárust um Evrópu. Sögunum í Þúsund og einni nótt var farið að safna í eina bók meðan Sæmundur var uppi, en ekki þýddar á frönsku eða neitt annað vestrænt mál fyrr en hálfu árþúsundi síðar. Þó eru þar áhugaverðar hliðstæður við þjóðsögurnar um Sæmund fróða.
Sæmundur gerir í sögunum marga samninga við Kölska um að þjóna sér, platar hann svo og sleppur við að greiða gjaldið sem yfirleitt var hann sjálfur eða sál hans, stundum tókst honum að fanga og loka Kölska inni í lítilli holu. Þetta þema er algengt í þjóðsögum af Sæmundi en sjaldgæft í sögum af öðrum íslenskum galdramönnum.
Í Þúsund og einni nótt eru margar sögur um anda kallaðir jinn eða djinn sem menn gera samninga við um að þjóna sér. Eða fá eitthvað í staðin fyrir að sleppa þeim úr prísund. Sú þekktasta er Aladdín og töfralampinn. Vel er hugsanlegt að Sæmundur hafi heyrt álíka sögur úti í Evrópu, sem hann staðfærði á Íslandi og endursagði með sjálfan sig í aðalhlutverki, enda mikill sögumaður og leikari.
Á miðöldum voru ekki skýr mörk milli dulspeki, vísinda og trúarbragða. Eins og áður segir voru stjörnuspeki og stjörnufræði miðalda sömu vísindin. Eins með læknisfræði, líffræði og nekrómansíu, sem og efnafræði og alkemíu. Náttúruvísindi og dulspeki voru sett undir sama hatt með þeirri undantekningu að særingar illra anda, djöfla, púka og fleiri myrkjavera var sérstaklega forboðið.
Kirkjan á elleftu öld bannfærði þau sem urðu uppvís af galdraiðkun, en gekk þó ekki lengra en það. Það var ekki fyrr en nokkrum öldum seinna sem hún byrjaði að taka fólk af lífi fyrir slíkar syndir. Það ríkti líka visst umburðalyndi fyrir kukli þeirra hærra settu í samfélaginu, sem þá eins og nú komust upp með ýmislegt sem aðrir máttu ekki. Prestar tilheyrðu valdastéttinni og framan af á Íslandi voru höfðingjar yfirleitt líka prestar.
Það má segja að kristni sé samfélagslega samþykkt og stofnanabundin dulspeki. Móttaka heilags sakramentis, með táknrænni neyslu blóðs krists og líkama krists, líkist mjög galdraseremóníu séð utan frá. Og er líka svo mikill munur á að biðja til engla, dýrlinga, beint til sonar Guðs, eða að ákalla annars konar ósýnilegan mátt?
Þó að Sæmundur hafi verið mjög gáfaður samkvæmt öllum heimildum og lærður í rökfræðum, þá útilokar það ekki galdra- eða dulspekitrú. Ekki frekar en hjá Isaac Newton, eins af feðrum nútíma vísinda, sem á átjándu öld lagði stund á alkemíu, númeralógíu, hermetisma og esóterisma meðal annars. Fleiri stór nöfn innan vísinda mætti nefna og nær okkur í tíma, eins og Albert Einstein, Thomas Edison og Nikolas Tesla en þeir höfðu allir áhuga á einhverju yfirnáttúrulegu.
Það má segja að galdrabann kirkjunnar hafi verið leið til einokunar á andlegum markaði en þó enginn vafi á því hvar Sæmundur fróði stóð í þeirri samkeppni. Kristni var honum bókstaflega í blóð borin því langafi hans Síðu-Hallur var fyrsti íslendingurinn sem tók skírn á Íslandi vorið 998 þegar honum var dýft í Þvottá í Álftafirði. Hallur hélt áfram kristniboðinu eftir að kristniboðinn Þangbrandur var farinn af landi og fór fyrir kristnum mönnum á Alþingi árið 1000 þegar trúin var lögleidd.
Dr. Dean Radin er einn þekktasti sálarrannsakandinn í dag. Hann hefur kannað hugsanaflutning, fjarheilun og mátt hugar yfir efni. Ein af niðurstöðum rannsókna hans er sú, að trú þáttakenda í tilraunum, á eigin hæfni og það fyrirbæri sem verið er að rannsaka hefur mikið að segja um niðurstöður. Í bók sinni Real Magic eða Alvöru galdur skrifar hann að þau sem trúa á fyrirbærið eru líklegri til að skila jákvæðum niðurstöðum, en þau sem efast, fá verri útkomu en tölfræðilegar líkur eru á. Á tíma Sæmundar fróða trúðu allir á galdra, aðrir trúðu að hann kynni að galdra, hann trúði því líklega sjálfur, svo var hann mögulega alvöru galdramaður?
Heimildir
- Ágrip af ævi Sæmundar prests hins fróða. Sæmundur fróði, janúar 1874
- Hvar nam Sæmundur fróði? Líndæla (2001). Garðar Gíslason
- Hungurvaka. Biskupa sögur
- Islamic Golden Age. Wikipedia
- Íslenskar þjóðsögur og ævintýri (1991). Jón Árnason
- Íslenzkar þjóðsögur (1978). Ólafur Davíðsson
- Jóns saga helga. Biskupa sögur
- Kristnisaga Íslands (1925). Jón Helgason
- Magic in the Ancient World (1997). Fritz Graf
- The Middle Ages. Witchcraft and Magic in Europe (2001). Karen Louise Jolly, Catharina Raudvere, Edward Peters
- Munnmælasögur 17. aldar (1955). Bjarni Einarsson
- Oddi. Wikipedia
- A Pope-Philosopher of the Tenth Century. The Catholic Historical Review, april 1922
- Pope Sylvester II. Wikipedia
- Real magic (2018). Dean Radin
- Síðu-Hallur. Wikipedia
- Sturlunga öld. Wikipedia
- Sæmundur fróði. Eimreiðin, júlí-dezember 1950
- Sæmundur fróði. Handan hafsins (2012). Helgi Guðmundsson
- Sæmundur fróði. Wikipedia
- Vinir ævilangt (2021). Þór Jakobsson
- Þjóðsögur við þjóðveginn (2000). Jón R. Hjálmarsson