Silfur Egils Skallagrímssonar

Mosfell, Mosfellsbær

Egill Skallagrímsson var uppi á tíundu öld, hann var samkvæmt Egils sögu; víkingur, skáld, berserkur og seiðkarl. Þegar hann fann dauðann nálgast, tók hann silfur sitt og faldi það einhvers staðar á eða nálægt Mosfelli í Mosfellssveit.

Höfundur með málmleitartæki á Mosfelli
Á Mosfelli í leit að silfrinu

Flestir íslendingar geta rakið ætt sína aftur til Egils Skallagrímssonar. Faðir hans og afi áttu í útistöðum við Harald hárfagra Noregskonung og ákváðu að halda til Íslands og var Skallagrímur meðal fyrstu Norðmanna til að setjast að á Íslandi en Kveld-Úlfur, föðurafi Egils, lést á leiðinni til Íslands.

Egill samdi sitt fyrsta kvæði þriggja ára, drukkinn í veislu. Sjö ára gamall drap hann annan dreng sem hafði farið illa með hann í ísknattleik og var hrósað fyrir af móður sinni.

Sem ungir menn sigldu Egill og eldri bróðir hans, Þórólfur, frá Íslandi til að fara í víking í Evrópu. Þeir gerðust að lokum liðsmenn Aðalsteins Englandskonungs, eins og margir ættingja þeirra samkvæmt Egils sögu.

Í hinum blóðuga bardaga á Vinheiði árið 937, sem þekktur er í Bretlandi sem Battle of Brunanburh, vann Aðalsteinn afgerandi sigur þökk sé hugrekki bræðranna samkvæmt Egilssögu, en Þórólfur féll í valinn. Í bætur gaf Aðalsteinn Agli gullarmband og tvær kistur af silfri, með þeim fyrirmælum að hann skyldi deila því með föður sínum og frændum. En það gerði Egill ekki, heldur hélt öllu fyrir sig og fylgdu kisturnar honum það sem eftir var.

Eftir viðburðaríka og ofbeldisfulla ævi settist Egill, sem var þá blindur og nær heyrnarlaus, að hjá bróðurdóttur sinni Þórdísi, að Mosfelli. Hann trúði henni fyrir að hann ætla að fara til Alþingis og „sá“ silfrinu, þ.e. henda því inn í mannþröngina, í þeirri von að átök myndu brjótast út. Þá gæti hann í eitt síðasta skipti heyrt í bardaga. En frænka hans sagði manni sínum, Grími goða, frá áætluninni og hann ákvað að skilja Egil eftir þegar hann hélt til Alþingis.

Nokkru síðar sagðist Egill ætla að ganga til laugar. Þess í stað fór hann með hest, tvo þræla og silfurkisturnar tvær. Hann sneri aftur morguninn eftir án þræla og silfurs. Stuttu síðar tók hann sótt og andaðist.

Í gegnum aldirnar hafa miklar vangaveltur verið um hvar silfrið gæti verið falið og margar tilraunir gerðar til að finna það. Vísbendingarnar sem Egils saga gefur eru að það gæti hafa verið falið í klettagljúfri fyrir austan Mosfellsbæ, hent í jarðholur eða sökkt í mýrar fyrir neðan bæinn. Ennfremur segir sagan að nokkrir silfurpeningar hefðu fundist í gljúfri sem kemur niður úr Mosfelli um miðja þrettándu öld, stuttu áður en Egils saga var skrásett á skinn.

Árið 1725 fundust fleiri silfurpeningar í gljúfri. Skrifarinn, sem segir frá því, sá peningana ekki sjálfur, en hefur eftir sjónarvotti að á þeim hafi verið áletrunin ANSLAFR. Mikið seinna áttuðu fræðimenn sig á því að þetta líktist því hvernig Ólafur, einn af andstæðingum Aðalsteins, ritaði nafn sitt, ANLAF.

Fornleifafræðingar telja sig hafa fundið hvar bærinn Mosfell gæti hafa staðið áður, undir Mosfelli í landi Hrísbrúar, einum bæ vestur af hvar bærinn Mosfell stendur nú.

Skyldi einhver vilja leita að silfrinu í kringum Mosfell, þá er tvennt að hafa í huga: Fyrst, að það er kurteisi að fá leyfi hjá bónda eða landeiganda. Annað, að ef silfrið finnst þá þarf að tilkynna það til Þjóðminjasafns Íslands. Ekki væri til of mikið ætlast til að fá fundarlaun, mynd í dagblaðið og ævilangan aðgang að safninu.

Gamalt kort af Mosfelli - map.is
Mosfell - map.is

Heimildir