Skyggna stúlkan frá Öxnafelli

Öxnafell. Eyjafjarðarsveit

Margrét Jónsdóttir Thorlacius fæddist árið 1908. Það kom snemma í ljós að hún sæi meira en flestir aðrir. Huldufólk og bústaði þeirra. Framliðnar manneskjur og dýr. Hún fór sálförum og gat lýst stöðum sem hún hafði aldrei komið á, og hún gat spáð fyrir um framtíðina. Snemma á unglingsaldri var fólk af Norðurlandi og víðar að farið að biðja hana fyrir skilaboð til andalæknisins Friðriks sem hún starfaði með.

Á Steinahjalla. Kletturinn til vinstri er bústaður huldubarnanna, sem Margrét lék sér við í æsku.

Dulrænir hæfileikar eru þekktir í ætt hennar og má þar helst nefna langa-langafa í föðurætt, sr. Hallgrím Thorlacius, prest í Miklagarði. Hún sagði líka að sum systkyna sinna væru skyggn en færu hljótt með.

Þegar Margrét var fjögurra ára fór hún að tala um ljósin sem hún sæi í fjallinu við bæinn á kvöldin, huldufólkið að kveikja ljós. Móðir hennar Þuríður sá ekki neitt en var samt ekkert að leiðrétta þetta.

Eins og kemur fram í bókinni Skyggna konan II, seinni bókin sem gefin var út um hana, þá hafa fleiri séð óútskýrð ljós í Eyjafjarðardal.

Þegar Margrét var fimm ára sá hún með fjarskyggni að týnda lambið hennar Kolur væri dáinn, og fór að gráta. Hún var mikill dýravinur og móðir hennar sagði að það væri eins og dýrin skildu hana. Margrét sá framliðna anda húsdýra eftir að búið var að slátra þeim og var glöð þegar hún skildi að þau ættu sér líka framhaldslíf eins og mennirnir.

Þegar hún var aðeins farin að stálpast var hún látin reka kýrnar á fjall. Mamma hennar undraðist hvað hún væri oft lengi og fékk þá að vita að Margrét hefði kynnst huldubörnum í klettabelti í fjallinu sem hún léki sér við. Seinna sagði hún að þegar hún kom á ákveðinn stað í klettunum sótti að henni svefn áður en heimsóknirnar byrjuðu. Af því réði hún, að hún hefði ekki farið í eigin líkama inn til huldubarnanna.

Það var í hópi huldufólks sem Margrét sá Friðrik fyrst þegar hún var um tíu ára. Hún spurði hvort hann væri huldumaður og hann svaraði að það mætti hún vel kalla sig en seinna sagðist hann á miðilsfundi vera framliðinn læknir, án þess að vilja fara nánar út í það.

Friðrik fór með Margréti í flugferðir í flugbátnum sínum sem lýst er í bókinni Skyggna konan. Hann var vanur að leggja honum nálægt bænum og lét Margréti svo vita þegar hann væri tilbúinn til brottfarar. Eitt sinn var hún beðin um, að næst þegar hún færi í flugferð myndi hún horfa til baka og sjá hvort hún skildi eitthvað eftir. Þegar hún kom til baka úr þeirri ferð sagðist hún aldeilis hissa, hún hefði séð sjálfa sig liggja á grasinu.

Eftir að hæfileikar Margrétar fóru að fréttast í sveitinni kom fyrir að hún væri beðin að nota þá til að leita að týndum búsmala. Í eitt skipti leitaði hún að kindum og lýsti því hvar hún sæi þær. Bóndinn sem hafði beðið hana um hjálp þóttist hafa leitað af sér allan grun á því svæði og tók ekki mark á henni, en fann svo seinna hræin af kindunum þar sem hún hafði bent á.

Í annað skipti var hún að leita að strokuhestum sem hún fann ekki, en sá kindur sem henni þóttu undarlegar, þær voru hvítar fyrir utan svart höfuð. Seinna komu þær fram í leitum.

Um það leiti sem Margrét kynntist Friðrik var móðir hennar mjög veik, og hún spurði hvort hann gæti hjálpað. Friðrik tók því vel og birtist í hvítum læknasloppi. Móðir hennar batnaði fljótt og átti eftir að lifa í um sextán ár til.

Samband Margrétar við huldulækninn spurðist smám saman út og þegar hún var sextán ára lá stöðugur straumur til bæjarins af fólki sem var að leita sér lækninga, en oftar að biðja um hjálp fyrir aðra. Henni bárust líka hundruðir bréfa.

Það var á þessum tíma um 1924 sem Einar Hjörleifsson Kvaran, rithöfundur, ritstjóri og frámámaður innan spíritistahreyfingarinnar uppgötvaði hana og skrifaði um í Morgunn, tímarit Guðspekifélags Reykjavíkur og varð hún þá landsþekkt.

Sautján ára fór hún til höfuðborgarinnar og dvaldi hjá Kvaran hjónunum í einn vetur. Til að leita sér lækninga og til rannsóknar á hæfileikum hennar. Ástæða þess að Margrét þyrfti að leita annað en til Friðriks með sinn eigin sjúkleika útskýrði Kvaran með því að ef miðlar læknuðu sjálfa sig þá hyrfi þeim miðilshæfileikinn.

Niðurstaða Kvarans var sú að Margrét væri gædd miklum og fjölþættum dulrænum hæfileikum, en sem lækningamiðill ætti hún enn eftir að þroskast. Honum var í mun að dulræn fyrirbæri væru rannsökuð á vísindalegan máta og virðist hafa reynt að aðskilja á milli þeirra og gamaldags þjóðtrú. Hann hélt því að Margréti að það væri ekki huldufólk sem hún sæi heldur framliðnir eða þá að um fjarskyggni væri að ræða, Margrét féllst þó aldrei á það.

Auk huldufólks sá hún líka álfa en hún gerði skýran greinarmun á milli þessara tveggja. Huldufólk var í hennar augum mjög líkt mannfólki, bara oft fallegra. Álfar voru hinsvegar litlir og héldu sig mest í kringum gróður og voru 30 til 40 sentimetra háir.

Hún sá líka blómálfa sem voru enn minni. Eftir að hún var flutt til Reykjavík þar sem hún bjó um tíma, var í garðinum búálfur sem seinna flutti sig inn í stofu og faldi sig bakvið stofuplöntu. Þá sá hún líka loftanda, náttúruanda og fékk stundum sýnir með dularverum og fallegri náttúru.

Margrét sá blik manna sem í dag er kallað ára. Það gagnaðist henni vel eftir að sjón hennar fór að versna sem afleiðing af veikindum hennar. Þekkti hún þá oft fólk á áru þess áður en hún gat greint það í sjón.

Þá var hún líka gædd þeim einstaka hæfileika að heyra mismunandi tóna og lög tengt ólíkum rithöndum. Sumum fylgdu fíngerðir tónar en öðrum grófari.

Hún taldi sig líka hafa lifað áður og fékk sýnir frá fyrri lífum í Egyptalandi og Frakklandi. Hún var vatnshrædd og tengdi það því að í fyrra lífi hefði hún drukknað á leið til Englands frá Frakklandi.

Fullorðin hjálpaði Margrét eitt sinn við leit að tveimur flugmönnum sem höfðu brotlent. Hún gat lýst fyrir leitarmönnum staðnum sem þeir voru á og annar flugmannana sem hún þekkti, sagði að sig hefði dreymt hana á sama tíma og hún var að setja sig í samband við hann.

Á Akureyri tók Margrét þátt í starfi Guðspekifélags Akureyrar, elsta félag sinnar tegundar á landinu, og fleiri félaga sem helguðu sig dulspeki. Þar kynntist hún Eiríki Sigurðssyni skólastjóra sem safnaði sögum af henni og Friðriki, fyrir bókina Skyggna konan sem kom út 1960 og varð metsölubók. Á eftir fylgdi seinna bindið Skyggna konan II 1963. Í þessum bókum eru fjöldi frásagna fólks sem taldi sig hafa notið góðs af andalæknininum Friðriks, en er þó aðeins lítið og handahófskennt brot af tilfellum samkvæmt Eiríki.

Áhugi á spíritisma hafði dalað eftir að Einar H. Kvaran og Haraldur Níelsson, annar frámámaður innan spíritisma, voru fallnir frá og minna var þá leitað til Margrétar. Við útkomu bókanna Skyggna konan I og II varð hún aftur landsfræg efir að áhugi á spíritisma hafði dalað frá því á milli heimstyrjalda, og farið að sækja til hennar í sama mæli og þegar hún var unglingur að Öxnafelli.

Hún tók á móti fólki heima hjá sér og henni bárust ótal bréf, símskeyti og símhringingar. Hún fór aldrei fram á greiðslu fyrir hjálpina þó að um fullt starf væri að ræða en tók við frjálsum framlögum.

Þó samskipti hennar við hulduverur væru oftast af jákvæðum toga þá var það ekki alltaf. Eitt skipti þegar hún bjó á Akureyri hafði við hana samband kona sem stundaði ósjálfráða skrift og vildi fá hana í heimsókn.

Friðrik sagði henni að fara ekki en það gerði hún samt. Heima hjá konunni sá hún lágar og óþroskaðar verur sem hræddu hana og sumt af ósjálfráðu skriftinni voru fölsk skilaboð frá Friðrik. Í önnur skipti sá hún lágar og óvinsamlegar verur helst í fylgd með drukknu fólki.

Þegar Friðrik kom fram á miðilsfundi með Einari Kvaran lýsti hann samstarfi hans og Margrétar þannig að hlutverk hennar væri að tengja hann við sjúklinga sem þyrftu á lækningu að halda og frá henni fengi hann líka orku sem gerði honum kleift að starfa.

Þær beiðnir sem Friðrik fékk til sín í gegnum Margréti voru jafn mismunandi og venjulegir læknar fá. Oft gat hann hjálpað en það kom líka fyrir að hann segði Margréti að sjúkdómur væri ólæknandi og í einhverjum tilfellum var einungis um líknandi meðferð að ræða.

Þegar hún var á unglingsaldri sagði Margrét stundum afdráttarlaust ef ekki væri hægt að bjarga sjúklingi en seinna hætti hún því og sagði þá frekar ekki neitt. Friðrik viðurkenndi að hann gæti ekki hjálpað með allt og vísaði sjúklingum stundum til lifandi læknis, til að mynda ef á skurðaðgerð þurfti að halda.

Læknisvitjanir Friðriks og síðar fleiri andalækna sem bættust í hópinn, upplifðu sjúklingar á misjafnan máta. Hann virtist helst koma á kvöldin eða á nóttunni og oftast urðu þau sem hann heimsótti einskis vör.

Stundum dreymdu þau hann, fundu fyrir nærveru eða að farið væri um þau höndum og það kom fyrir að meðferðinni fylgdi sársauki. Í stöku tilfellum upplifðu sjúklingar vitjun hans eins og hvaða annars læknis og áttu við hann full samskipti.

Stundum voru notuð áhöld við meðferðina eins og bakstrar, nálar eða önnur tæki. Í eitt skipti fundu aðstandendur sterka meðalalykt á þeim tíma sem hann var í heimsókn, í annað skipti sá kona eins og hvít hröð norðurljós birtast yfir rúmi drengs sem svaf í sama herbergi og kona sem Friðrik var beðinn um að vitja.

Í bókunum er mörgum tilfellum lýst þar sem lifandi læknar eru undrandi á bata sjúklings, þegar þeir töldu litla eða enga von.

Strax á unglingsárum Margrétar frá Öxnafelli var spurt hvort hún væri ekki bara geðveik, og í dag hefði hún líklega verið sett snemma á sterk geðlyf. Hefði hún fæðst einni til tveimur öldum fyrr hefði hún kannski verið ásökuð um galdra, villutrú og ofsótt. Í staðin fann hún sér stað í samfélaginu þar sem hún var virt og lifði farsælu lífi.

Öxnafell - map.is

Heimildir