Strandarkirkja

Selvogur, Ölfus

Á berangri og fyrir opnu hafi stendur lítil og látlaus sveitakirkja. Hún lætur ekki mikið yfir sér en er þó frægasta kirkja Íslands. Hún er líka sú ríkasta vegna þeirra áheita sem til hennar berast og hafa gert lengi. Einungis er staðið við áheitin ef það sem beðið er fyrir rætist. Því er ríkidæmið helsta sönnunin fyrir mætti hennar.

Strandarkirkja
Strandarkirkja

Um fyrstu kirkjuna sem þarna var reist er til helgisögn sem gengið hefur frá kynslóð til kynslóðar í Selvognum. Snemma á miðöldum, mögulega stuttu eftir kristnitöku, sigldi knörr til Íslands með byggingatimbur frá Noregi. Skipið lenti í sjávarháska stuttu frá ströndinni og hétu skipsmenn því að þeir skyldu reisa kirkju úr timbrinu ef þeir björguðust á land. Þá birtist þeim ljós vera á ströndinni, sumir segja fyrir stafni, sem beindi þeim að öruggri lendingu nálægt þeim stað sem nú heitir Engilsvík. Skipbrotsmenn efndu heit sitt og reistu kirkjuna sem var helguð Maríu mey og Tómasi frá Kantaraborg.

Heitið hefur verið á kirkjuna í nær þúsund ár vegna mis alvarlegra mála. Allt frá veikindum og lífsháska, til bæna um að finna ástina og áheita um að verða ekki of seinn. Áheitin eru nær alltaf bænir til góðs en allavega eitt þeirra var beiðni um að gera öðrum erfitt fyrir.

Þórbergur Þórðarson skráði niður frásögn manns sem ætlaði með vinafólki til Þingvalla frá Reykjavík en þau lögðu af stað án hans. Maðurinn reiddist og hét á Strandarkirkju um að þau skyldu ekki komast alla leið, þá var klukkan þrjú. Um kvöldið heyrir hann í einni af þeim sem fóru af stað til Þingvalla, og fréttir að þegar hópurinn var kominn í hestakerru upp á Mosfellsheiði um klukkan þrjú hafi hestarnir allt í einu stoppað og neitað að halda áfram. Sama hvað var reynt; að teyma þá, slá, losa frá vagninum eða fara á bak, allt kom fyrir ekki. Eftir nokkra klukkutíma gáfust þau upp og snéru við. Þá hlupu hestarnir til Reykjavíkur í einum sprett.

Nokkrum árum seinna skráði Þórbergur frásögn konu sem var að koma úr hinni áttinni sama dag á sama tíma og sá hestvagninn og mennina að reyna að koma hestunum áfram en þeir stóðu kyrrir eins og klettar.

Kirkjunnar er fyrst getið í heimildum á þrettándu öld. Í kaþólsku var alvanalegt að heita á dýrlinga og kirkjubyggingar og fara engar sérstakar sögur af áheitum á kirkjuna frá þeim tíma, þó virðist henni hafa borist óvanalega mikið af áheitum því þau voru talin með sem tekjulind eða hlunnindi en það var ekki vaninn.

Sú kirkja sem nú stendur var upphaflega byggð 1888 og er kirkjuskipið upprunalegt, hún var endurbætt og endurvígð 1968. Þarna hafa staðið margar kirkjubyggingar og stundum hefur kirkjan verið í hættu, bæði frá náttúruöflum sem lögðu blómlega sveitina í eyði og skildu hana eina eftir, og frá kirkjuyfirvöldum sem reyndu í þrígang að færa hana. En vegna andstöðu sóknarbarna, hjálp bandamanna utan og innan Þjóðkirkjunnar og mögulega fyrir sinn eigin mátt þá stendur hún enn á sama stað.

Í fyrstu tilraun voru það prestur, prófastur, biskup og stiftamtmaður sem komu að þeirri ákvörðun að flytja kirkjuna. Sautján hundruð fimmtíu og eitt skipaði biskup að kirkjan skyldi rifin og endurreist að Vogsósum, en þar bjuggu yfirleitt þeir prestar sem þjónuðu kirkjunni. Hann gaf til þess tveggja ára frest en áður en kom að því voru prófastur og biskup látnir, presturinn flæmdur á brott og búið að reka stiftamtmann. Aftur var reynt að flytja krikjuna 1756 og 1820 en vegna andstöðu sóknarbarna og sóknarprests varð ekki af því.

Strandarkirkja stóð lengi í landi höfuðbólsins Strönd eða í um fjórar aldir frá u.þ.b. 1300 til 1700. Þar var eitt af höfuðbólum Erlendinga, einnar af voldugustu ættum landsins sem þarna bjuggu í átta ættlið. Ættin hét og heitir líklega enn, eftir Erlendi sterka Ólafssyni, riddara og lögmanni sem til eru þjóðsögur um en hann var fæddur nálægt 1235. Enn má sjá tóftir höfuðbólsins norður af kirkjunni.

Á þeim tíma var sveitin gróðursæl og voru þar nokkur minni býli fyrir utan höfuðbólið. Þar óx skógur, stutt var í gjöful fiskimið og fuglabjarg og mikill reki barst á land. Á sextándu öld segir þjóðsaga að fyrstu merki um landeyðingu hafi sést. Sagt er að einn afkomandi og nafni Erlends sterka, Erlendur Þorvaldsson sem þótti slæmur með víni, hafi drepið smala sinn fyrir að færa sér þær fréttir að hann hefði fundið sand í landinu. Sagði Erlendur að hann vildi ekki hafa mann í sinni þjónustu sem færði sér svo ill tíðindi. Höfuðbólið fór í eyði 1696 og öll byggð nálægt kirkjunni var sömuleiðis horfin árið 1762. Umhverfis kirkjuna var þá uppblásin auðn og sandfok.

Í Strandarkirkju hafa þjónað margir prestar í gegnum aldirnar og á síðustu árum Erlendunga á staðnum hefur það verið séra Eiríkur Magnússon (1638-1716), kenndur við Vogsósa. Hann er einn af þekktari galdramönnum í þjóðsögum og um hann eru þær margar til. Hann er grafinn í nú týndri gröf í kirkjugarðinum, eða fyrir framan altarið samkvæmt fyrrum kirkjuverði.

Saga áheita á Strandarkirkju í þeirri mynd sem nú þekkist, og auknar vinsældir þeirra má rekja til átjándu aldar. Bjarni Sívertsen riddari, sem kallaður er faðir Hafnarfjarðar, var uppvaxinn í Selvogi nálægt kirkjunni og hét á hana 1778, þá fjórtán eða fimmtán ára, að úr honum yrði eitthvað í lífinu. Hann efndi áheitið sextán árum seinna og gaf kirkjunni predikunarstól.

Engar sérstakar hefðir eru um það hvernig vinna skuli áheit til Strandarkirkju. Nóg er að biðja: Ég heiti á Strandarkirkju að ef … þá … Í dag er oftast um peningagjafir að ræða en áður voru það frekar munir sem gefnir voru til kirkjunnar og mögulega þjónusta eða vinna. Upphæðin sem heitið er skiptir ekki öllu máli heldur hugarfarið og oftast hafa verið um litlar gjafir að ræða. Þó hafa öðru hvoru í gegnum árin borist háar upphæðir. Ekki þarf að vera vitni að áheitinu og ekki þarf að vinna áheitið í eða við kirkjuna. Það þarf ekki að gefa neitt fyrirfram, bara eftir að áheitinu hefur verið svarað. Engum sögum fer af því hvað gerist sé það ekki gert.

Á síðari hluta nítjándu aldar var farið að birta í blöðum áheit og upphæðir á ýmsa staði, sem virkaði eins og auglýsing fyrir Strandarkirkju, og var sumum af kirkjunar þjónum ekkert um þessa hjátrú. Ritstjóri Kirkjublaðsins sem seinna varð biskup landsins skrifar 1892 gegn áheitum á Strandarkirkju og segir að margir prestar hefðu sömu skoðanir og hann.

Pistillinn lýsir hneykslan og þar er ýmist skrifað að verið sé að heita á kirkjuna sjálfa, sem sé rammasta kaþólska, eða heita gjöf til Guðs gegn því að ósk rætist, sem sé kaupskaparlegt, eða þá að heitið sé á galdrakrafta séra Eiríks á Vogsósum. Þá er skrifað að það séu margar þurfandi kirkjur í landinu en Strandarkirkja sé svo rík að hún ætti ekki að vera ein um slíkar gjafir.

Þessi skrif lýsa vel viðhorfi hjá ráðandi kirkjuyfirvöldum þess tíma og jafnvel síðar. Þeim þykir það óþægilegt hvað áheitin passa illa inn í mótmælendatrúnna og það er ekki laust við að skrifin gefi í skyn öfund gagnvart kirkjunni. Þó var það Strandarkirkja sem stóð undir viðhaldi annarra kirkna á landinu því með áheitum til hennar var stofnaður Hinn almenni kirkjusjóður. Sjóðurinn lánar enn þann daginn í dag til viðhalds og innkaupa á munum og er enn að stærstum hluta fjármagnaður af Strandarkirkju.

Á stundum naut kirkjan sjálf einskis af áheitunum sem til hennar bárust og fékk hún ekki nauðsynlegt viðhald. Mögulega voru kirkjuyfirvöld þá að reyna að losna við þetta olbogabarn með því að láta náttúruna um að eyðileggja hana. Þegar lagafrumvarp var sett fram á Alþingi 1928 um að nota hluta af áheitum til að verjast frekar uppblæstri við kirkjuna, þá mætti það andstöðu frá fulltrúum kirkjunnar, m.a. frá biskupi landsins. En frumvarpið náði í gegn og í dag má sjá afrakstur þeirrar uppgræðslu. Þar sem áður voru einungis fjúkandi svartir sandar og bert hraun er nú kominn harðger gróður.

Í dag eru kirkjuyfirvöld mun velviljaðri í garð kirkjunnar og hafa bæði prestar og biskupar farið um hana fögrum orðum í ræðu og riti. Kirkjan fær nú nauðsynlegt viðhald og ráðstafanir hafa verið gerðar til að mæta auknum áhuga ferðamanna sem þangað vilja sækja.

Sé eitthvað sem bjátar á, hvort sem það er alvarlegt eða ekki, eða ef einhver vill bara reyna mátt kirkjunnar og biðja um eitthvað, þá er það auðvelt í framkvæmd. Á síðu kirkjunnar er sérstakur flipi fyrir áheit greidd með kreditkorti, efst til hægri. Hefðin er sú að ekki þarf að standa við áheitið nema bæn sé svarað og þá er hægt að nota þennan flipa.

Gamalt kort af Herdísarvík þar sem Strandarkirkja stendur - map.is
Strandarkirkja - map.is

Heimildir