Þuríður formaður

Stokkseyri, Sveitarfélagið Árborg

Árið 1827 var framið rán á bænum Kambi í Flóa sem vakti óhug meðal landsmanna og var síðar oft nefnt í sömu andránni og tvö önnur illræmd sakamál nítjándu aldar; morðin á Sjöundá sem framin voru 1802 og morðin á Illugastöðum 1828. Rannsóknin á Kambsráninu og réttarhöldin vegna þess urðu þau viðamestu í íslandsögunni fram að því.

Séð innan úr Þuríðarbúð
Inni í Þuríðarbúð

Við rannsókn á ráninu naut sýslumaður aðstoðar konu sem hét Þuríður Einarsdóttir (1777-1863), kölluð Þuríður formaður. Sýslumaður hafði ákveðna menn grunaða en ólíklegt er að málið hefði leysts án hennar. Þuríður beitti svipuðum aðferðum og evrópskir brautryðjendur í glæparannsóknar- og réttarrannsóknarfræðum voru að þróa á sama tíma og óhætt er að kalla hana fyrsta spæjara íslandssögunnar, en þeir hafa ekki verið margir eftir það. Þó ekki sé vitað um fleiri rannsóknir á glæpamálum sem hún koma að, fyrir utan öflun sönnunargagna til að verjast persónuárásum á hana sjálfa, þá virðist hún hafa verið á alveg sömu bylgjulengd og Eugène François Vidocq (1775–1857) sem var samtíðamaður hennar nánast upp á ár en hann er kallaður faðir nútíma spæjarans og nútíma afbrotafræða.

Það var niðamyrkur, slagveður og stormur aðfararnóttina 9. febrúar 1827 þegar fjórir grímuklæddir menn brutust inn í bæinn Kamb og ruddust inn í baðstofuna. Þar lágu nakin í rúmum sínum bóndinn, ráðskonan, vinnukonan og fimm ára drengur. Ræningjarnir bundu þau öll og hótuðu morði og misþyrmingum ef þau segðu þeim ekki hvar peningar bóndans væru faldir.

Bóndinn fékk verstu meðferðina, en hann var svo hræddur að hann gat ekki komið upp orði. Vinnukonan, sem fyrst varð að spyrja hvort hér færu menn eða djöflar, fékk það svar að þeir væru sendir frá himnum til að sækja fé bóndans. Hún sagði ræningjunum loks að peningar væru grafnir undir lömbunum, þar sem þeir hófu leit. Þeir drógu einnig fólkið fram á gólf, rótuðu í rúmum og eldstæði, og brutu upp alla skápa og kistur.

Þegar ræningjarnir voru á leið burt með ránsfenginn heyrði heimilisfólkið þá deila um hvort kveikja ætti í bænum eða ekki. Upp úr krafsinu höfðu þeir um þúsund ríkisdali, sem jafngildir um einni milljón króna í núvirði.

Þegar sýslumaður Árnessýslu Þórður Sveinbjarnarson og aðstoðarmaður hans Jón Jónsson komu daginn eftir og yfirheyrðu vitni sögðu konurnar að þær hefðu fundið þangreykjarlykt af skinnklæðum ræningjanna og vegna þess, ásamt skó sem fannst í átt að sjónum héldu þeir til Stokkseyrar. Þeir komu þangað rétt fyrir messulok og stilltu sér upp fyrir utan kirkjuna til að sjá hvernig mönnum brygði við. Þeit tóku sérstaklega eftir tveimur, Jóni Geirmundssyni sem þeim virtist fát koma á og Sigurði Gottsvinssyni sem leit illilega til þeirra.

En fyrir utan það og nokkra hluti sem ræningjarnir höfðu skilið eftir sig var ekki mikið að byggja rannsókn málsins á svo sýslumaður ákvað að leita sér hjálpar meðal heimamanna. Fyrst snéri hann sér að Jóni hreppstjóra í Móhúsum sem færðist undan, því hann óttaðist að það myndi baka honum óvinsældir að bendla nágranna sína við glæpinn. En hann benti á Þuríði Einarsdóttir sem áður hafði verið háseti á bát hans og sagði að hún væri skarpskyggn og eftirtektarsöm.

Þuríður þessi var bátsformaður á áttæringi. Hún var þá þegar þekktur sægarpur og naut virðingar annarra formanna, enda var hún alltaf meðal þeirra aflahæstu á hverri vertíð þrátt fyrir að vera á minni bát en margir aðrir. Hún byrjaði að stunda sjósókn ellefu ára og þó ekki væri einsdæmi að konur stunduðu sjósókn þá var það óheyrt að stúlkubarn gerði það.

Sjómennskan mótaði persónuleika hennar og talsmáta, hún talaði í stuttum skýrum setningum eins og vaninn er á sjó þar sem umhverfishljóð og aðstæður bjóða ekki upp á langar útskýringar. Hún var líka góð að lesa í veður og vísbendingar náttúrunnar um hvar fisk væri að finna.

Þuríður var sömuleiðis treg til að hjálpa af sömu ástæðu og Jón en sýslumaður hafði eitt sem hann gat notað á hana. Hún hafði þann sið að ganga hversdagslega í karlmannsfötum eins og hún hafði vanist á þegar hún byrjaði að stunda sjóinn. Sýslumaður sagði að til þess þyrfti leyfi frá konungi og sagðist hann geta útvegað henni það leyfi ef hún hjálpaði. Ekki er tekið fram hvaða refsingu hann hefði getað boðið upp á hefði hún neitað.

Ræningjarnir höfðu skipulagt verknaðinn vel og kölluðu hvorn annan nöfnum manna úr nágrenni bæjarins meðan á ráninu stóð til að villa um fyrir vitnum. Þeir höfðu líkað farið vettvangsferðir til að kanna aðstæður eins og síðar kom í ljós. En það sem helst varð þeim að falli voru nokkrir hlutir sem þeir skildu eftir sig og Þuríður fékk til rannsóknar. Meðal þeirra voru skórinn sem fannst nálægt Kambi, járnteinn sem notaður var til að brjóta upp bæinn, hattgarmur og vettlingur.

Þuríður skoðaði handbragðið á skónum og gat nefnt þrjá bæi þar sem húsfreyjur kynnu að gera svona skó. Einn af þeim var hvar Jón Geirmundsson bjó, sá sem fát hafði komið á fyrir utan kirkjuna. Hún gerði sér ferð þangað til að tala við Jón og hvatti hann til að játa sem fyrst ef hann væri sekur. Í leiðinni rannsakaði hún smiðju Jóns svo lítið bæri á og sá að á steðjanum var meitilfar sem passaði við far á járnteininum sem skilinn hafði verið eftir.

En henni fannst ólíklegt að Jón hefði verið leiðtogi hópsins heldur datt strax í hug að það gæti hafa verið Sigurður Gottsvinsson. Sigurður hafði verið háseti hjá henni eina vertíð og þó hún segði hann vera besti sjómaðurinn sem róið hefði með henni, þá vildi hún ekki ráða hann aftur vegna innrætis og slæmra áhrifa sem hann hafði á aðra í áhöfninni.

Þuríður sagði sýslumanni líka að hattgarmurinn líktis mjög hatti sem sonur Sigurðar Gottsvinssonar hafði verið með árið á undan. Stuttu seinna kom Sigurður til hennar og hótaði að drepa hana ef hún tengdi hann við málið. Hún tók það alvarlega enda var faðir hans bendlaður við nokkur morð og að beiðni hennar var Sigurður handtekinn og settur í gæsluvarðhald.

Hjá Þuríði var háseti að nafni Jón Kolbeinsson þessa vertíð. Eftir að rannsókn málsins var hafin kom bróðir hans Hafliði að tali við Þuríði og bað um pláss á bátunum sem hann og fékk, en seinna kom í ljós að hann var einn ræningjanna. Jón tók upp á því að elta Þuríði á röndum þegar þau voru í landi og fór hana brátt að gruna hann og fannst sér ógnað. Vettlingurinn sem fannst var hafður til sýnis á Kambi og eftir að Þuríður hafði viljandi talað um hann í áheyrn Jóns, hvarf vettlingurinn eftir að hann hafði gert sér ferð á bæinn. Hann reyndist svo líka vera einn af ræningunum.

Jón Geirmundsson játaði eftir hvatningu Þuríðar sem sagði að honum yrði metið það til málsbóta ef hann yrði fyrstur til að játa, hún lofaði líka að gæta dóttur hans færi hann í fangelsi. Að lokum játuðu þeir allir og var Sigurður Gottsvinsson síðastur til þess.

Rannsókn málsins tók 11 mánuði og voru haldin 52 réttarþing og 30 voru dregnir fyrir dóm. Að lokum var búið að koma upp um heilann bófaflokk sem stundað hafði þjófnað á bæjunum í kring og frá kaupmanninum á Eyrarbakka.

Örlög ræningjanna fjögurra urðu að þeir voru dæmdir 1829 og sendir í afplánun til Danmerkur. Refsingin var mishörð og hlaut Sigurður þann dóm að hann skyldi hýðast, brennimerktur og fá ævilanga þrælkunarvist. Jón Geirmundsson var dæmdur til hýðingar og æfilangrar þrælkunar. Jón og Hafliði Kolbeinssynir fengu sitthvor 12 og 8 ára þrælkunarvinnu.

Allir fengu sakaruppgjöf konungs árið 1844 nema Sigurður sem var hálshögginn fyrir að ráðast á fangavörð. Honum var kannski ekki viðbjargandi því hann var sonur orðlagðra þjófa, var laminn af drukknum föður í æsku og móðir hans sagðist sjálf í ellinni hafa gefið hann djöflinum meðan enn ófæddur í skiptum fyrir að faðir hans slyppi við refsingu fyrir þjófnað.

Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem Þuríður brá sér í gerfi spæjara því áður hafði hún þurft að gera það til að verja mannorð sitt. Hún hafði verið háseti á bát Jóns í Móhúsum í ellefu vertíðir en réði sig svo til formennsku á annan bát. Jón var ekki sáttur við það og hefndi sín með því að láta semja um hana níðvísur sem hann lét sjómenn fara með úti á sjó svo Þuríður og áhöfn hennar heyrði.

Þurður komst að því að níðvísunum hafði verið dreift á blöðum og tóks með klækjum að komast yfir eintak. Það notaði hún svo til að kæra Jón en málið endaði með sátt þó aldrei yrði alveg gott á milli þeirra. Hann gerði henni líka óleik með að benda sýslumanni á hana því hann vissi að það yrði ekki vinsælt hjá sveitungum. Þuríður reyndi í fyrstu að leyna aðstoðinni með því að fá sýslumann til að kalla hana líka til yfirheyrslu ásamt grunuðum en það dugði skammt.

Eins og áður segir óttaðist Þuríður um líf sitt meðan á rannsókn Kambsránsins stóð, vegna Sigurðar Gottsveinssonar sem hafði í hótunum, og Jóns Kolbeinssonar sem elti hana. En öllu var ekki lokið með að þeir færu í fangelsi. Mörgum árum seinna var skotið inn í svefnhúsið hennar en kúlan fór yfir þar sem hún lá undir glugganum.

Það upplýstist aldrei hver gerð það eða hvort tilræðið tengdist Kamsránsmálinu, einhverju öðru máli eða illindum, en Þuríður átti í mörgum deilum og kærði nokkra vegna níðyrða, meðal annars þegar hún var sökuð um að vera tvíkynhneigð.

Þó Þuríður væri á undan sinni samtíð þegar kom að rökhugsun og rannsóknum, þá trúði hún að hana elti draugur úr fortíð fjölskyldunnar. Hann var kallaður Sels-Móri og var upphaflega förupiltur sem varð úti eftir að faðir hennar hafði neitað honum um gistingu. Eftir það fylgdi hann fjölskyldunni og var meðal annars kennt um dauða bróður hennar.

Kenndi hún Móra líka um hversu illa henni gekk í ástarmálum en hún átti nokkur mislukkuð sambönd. Einu sambandi var spillt af systur manns hennar með lygum um framhjáhald þegar hún var ólétt að dóttur þeirra, það gerði systirin því hún vildi ekki að fjölskylda hennar tengdist ættarfylgju. Dóttir Þuríðar dó fimm ára gömul og syrgði Þuríður hana mjög.

Um ránið og hlut Þuríðar í að leysa það skrifaði Brynjólfur frá Minna-Núpi bókina Sagan af Þuríði formanni og Kambránsmönnum. Hún varð þjóðsagnapersóna í lifandi lífi og eftir henni hefur verið nefnt skip, fótboltalið, hljómsveit og verkakvennafélag. Einnig er Þuríðarhella við Knarrarós nefnd eftir henni.

Á Stokkseyri stendur eftirmynd af sjóbúð Þuríðar og heitir Þuríðarbúð. Það er hluti af byggðasafninu og þó hún sé ekki heimsfræg eins og íbúð Sherlock Holmes að Baker Street 221B í London, er hún engu að síður áhugaverður staður til að heimsækja.

Gamalt kort af Eyrarbakka og Stokkseyri
Eyrarbakki og Stokkseyri - map.is

Heimildir