Útilegumenn í Þórisdal

Geitlandsjökull, Grímsnes- og Grafningshreppur

Í þjóðsögum eiga útilegumenn sinn eigin flokk og eru upprunalega útlagar sem flúið höfðu inn í óbyggðir og ýmist haft með sér fjöskyldu sína eða rænt konum úr byggðum. Afkomendur þeirra kölluðust fjallabúar og lifðu einangraðir, kynslóð fram af kynslóð í óbyggðum, allt frá tímum Íslendingasagna.

Þórisdalur - map.is

Hálendið var lengi ókannað og var það trú fólks að þar væru útlegumannabyggðir í fjalladölum sem fáir gætu ratað til og voru þær stundum faldar á yfirnáttúrulegan hátt. Samgangur var milli útilegumanna og mynduðu þeir smáþjóð sem hélt sig frá hinni þjóðinni í landinu og var með sameiginlegar varnir gegn ágangi hennar. Það kom fyrir að smalar villtust á hálendinu og lentu í klóm þeirra og voru þá ekki til frásagnar nema fjallbúar þyrmdu lífi þeirra gegn loforði um þagmælsku og einhverjum greiða.

Í eða nálægt Geitlandsjökli sem er í vesturenda Langjökuls, var sögð vera byggð útilegumanna í Þórisdal. Vegna líkinda við aðrar frásagnir um hulda dali útlegumanna er talið að um sama dal sé að ræða og Valadal og Áradal. Þórisdalur er í dag merktur á landakort milli Geitlandsjökuls og Þórisjökuls.

Elsta heimildin um dalinn er í Grettissögu. Það er einn af stöðunum þar sem Grettir leitar skjóls á útlegðarárum sínum. Þangað ratar hann eftir leiðbeiningum Hallmundar sem hafði hýst hann í helli sínum nálægt Langjökli. Grettir finnur dalinn með því að fara upp á Geitlandsjökul að norðanverðu og gengur þvert yfir hann í áttina til suðurs þangað til hann kemur að löngum og mjóum dal með jökulís á allar hliðar sem slútir fram yfir dalinn. Þar eru grasi vaxnar hlíðar, kjarr og hverir sem honum finnst líklegt að haldi jöklinum frá því að lokast yfir, en lítil birta frá sólinni berst niður. Eftir dalnum féll lítil á og fannst Gretti merkilegt hvað þar er mikið af feitu sauðfé.

Sá sem ræður yfir dalnum heitir Þórir og Grettir nefnir dalinn eftir honum. Það er með hans leyfi sem Grettir fær að vera. Þórir er kynblendingur, hálfur maður og hálfur bergrisi. En nokkrir af landnámsmönnum sem komu til landsins um hundrað árum fyrr voru sömuleiðis af ætt hálf risa eða trölla, þar á meðal Egill Skallagrímsson. Það eru ekki nefndir fleiri íbúar í dalnum fyrir utan dætur Þóris sem Grettir á vinfengi við. Grettir er þarna um veturinn þangað til honum fer að leiðast í fámenninu. Gekk hann þá suður út úr jöklinum og upp á fjallið Skjaldbreiður þar sem hann reisti upp hellu, gerði í hana rauf og segir að ef horft sé eftir raufinni sé hægt að sjá gil þar sem lækur rennur úr dalnum. Ein heimild hermir að í byrjun síðustu aldar hafi smali fundið stóra hellu í norðurhlíð Skjaldbreiðar, sem var klofin í miðju eftir rauf sem í henni var, hafði hún sýnilega verið reist upp á stall en fallið niður og brotnað.

Ef Þórisdalur er sá sami og Áradalir, sem nefndir eru í fleirtölu í því riti sem hér verður vitnað í á eftir, þá er Þórir ekki fyrsti íbúinn heldur tók hann dalinn yfir eftir að hafa drepið þann sem fann hann fyrst, Skegg-Ávalda eða Skugga-Valda. Um hann skrifar Jón lærði Guðmundsson (1574 – 1658) sem var áhugamaður um falda dali eins og svo margt annað.

Í riti eftir hann, Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur, stendur að meðal landnámsmanna sem komu frá nyrsta hluta Skandinávíu hefðu verið þeir sem lært höfðu „berg að opna og aftur að lykja, þar út og inn að ganga,“ eins og „Bárður í Jökli, Hámundur í Hámundarhelli, Bergþór í Bláfelli, Ármann í Ármannsfelli og Skegg-Ávaldi sem fann Áradali og gjörðist guð yfir, því svo biður þar fólkið: ,Skegg-Ávaldi, skygg þú yfir land þitt, svo ekki verði Áradalir fundnir.’“ Þessir bergbúar koma fyrir í Íslendingasögunum og er Skegg-Ávaldi ætlaður sá sami og Ávaldi Ingjaldsson í Vatnsdælasögu.

Í Áradalsóði sem Jón lærði samdi líka er dalurinn hafður í eintölu og þar eru raktar nokkrar þjóðsögur sem einnig er að finna í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Þar er Skegg-Ávaldi sagður hafa byggt dalinn og skyggt hann, þ.e. falið hann með göldrum og flutt þangað með sitt fólk sem var heiðinnar trúar. Þegar Grettir kemur í dalinn er landið búið að vera kristið í meira en hálfa öld og allavega dætur Þóris eru kristnar því þær halda lönguföstu fyrir páska, og segir Grettir þeim að þá sé í lagi að borða lifur og mör.

En samkvæmt Áradalsóði hefur fólkið haldið í ásatrúnna undir Skegg-Ávalda því þar er sagt frá manni sem dreymdi að hann kæmi í dalinn og var bannað að minnast á hinn kristna guð, en til sönnunar um að draumurinn væri sannur þá er honum gefinn sauður með ákveðnu marki sem svo kemur fram í réttum um haustið.

Tengingin við Þóri í Þórisdal er úr riti frá 1780 sem gæti verið byggt á eldri sögnum. Í Ármanns sögu hinni yngri sem gerist um hundrað árum fyrir tíma Grettis, er sagt frá Skugga-Valda sem bjó í Valadal. Vegna þess hversu líkt það er nafninu Skegg-Ávaldi eru þeir taldir vera sá sami. Valadalur á líka að liggja austur frá Skjaldbreið eða á svipuðum slóðum og Þórisdalur og er umlukinn jöklum eins og hann. Í sögunni segir frá því hvernig Þórólfur faðir Þóris stelur kindum frá Skugga-Valda sem drepur hann fyrir. Þórir leitar Skugga-Valda uppi í helli sínum í Valadal og hefnir föður síns með hjálp Ármanns í Ármannsfelli. Eftir það slær hann eign sinni á dalinn með öllu því sauðfé sem í honum er og flytur þangað með konu sinni og dætrum.

Í ritinu Lítið ágrip um hulin plass og yfirskyggða dali á Íslandi sem er ýmist eftir Jón lærða Guðmundsson, eða Jón Eggertsson á Ökrum, segir frá Teiti sem fer með tólf manna flokk í leit að dalnum. Þeir lenda í mikilli þoku og heyrir Teitur rödd koma úr þokunni sem varar hann við að halda áfram eða tröll muni taka hann, svo þeir snúa við.

Flestar af þessum sögum hafa tveir prestar á sautjándu öld þekkt þegar þeir ákváðu að reyna að finna dalinn árið 1664 með tveimur fylgdarmönnum, um hálfu árþúsundi eftir að Grettir kom þangað. Annar prestanna, séra Helgi Grímsson hafði lengi verið áhugasamur um Þórisdal og áður reynt að fá menn til að koma með sér að að finna hann. Faðir hans var séra Grímur Jónsson á Húsafelli, sem var sveinn Odds biskups Einarssonar og var með honum í ferð yfir Ódáðahraun þar sem þeir villtust í þoku og fengu hálp frá útilegumönnum sem gáfu þeim hest, vistir og leiðsögn að Jökulsá.

Hinn presturinn var mágur Helga, séra Björn Stefánsson og skrifuðu þeir báðir um ferðina, Helgi strax um haustið eftir en Björn ekki fyrr en löngu síðar. Þeir hittust í Kaldadal þar sem lá þjóðleið yfir hálendið og fóru að tala um Þórisdal, þá ákváðu þeir að þar sem veðrið væri gott, að láta verða af því að leita dalsins og reyna að kristna þá útlegumenn sem þeir fyndu.

Engin vopn tóku þeir með sér, einungis brauð og flösku af brennivíni og töldu víst að útlegumenn yrðu ánægðir með það. Með þeim var ungur piltur sem þeir ætluðu að slaka niður fyrir bjargbrún við Þórisdal, til að segja sér hvað hann sæi ef það þyrfti. Til þess kom þó ekki heldur skildu þeir hann eftir á einum stað til að gæta hestanna.

Eftir nokkuð erfiði komust þeir þangað sem þeir sáu yfir Þórisdal suður undir Geitlandsjökli en komust ekki ofan í hann. Þeim þótti samt augljóst að þarna væri ekki blómleg byggð útlegumanna og snéru við eftir að hafa kannað helli sem er þar nálægt og þeim fannst vera líklegur bústaður Þóris hálfþurs. Af þessarri för urðu þeir landsfrægir og þóttu hugrakkir að hafa hætt sér inn í land útlegumanna.

Nær öld leið þar til dalsins var aftur leitað svo skrásett sé. Landkönnuðurnir Eggert og Bjarni reyndu að fara þangað 1753 en urðu hætta við vegna veðurs. Um sumarið 1833 fór kennarinn Björn Gunnlaugsson upp á Skjaldbreið með góðan kíki og kannaði með honum jökulrönd Geitlandsjökuls. Hann gat séð dalsminni en ekki hversu langt inn í jökulinn það gengi. Árið eftir fór hann upp á Bláfell í Árnessýslu og horfði þaðan í gegnum kíkinn og sá stórann óþekktan dal sem klyfi endilangan Geitlandsjökul í framhaldi af dalsmynninu sem hann sá sumarið áður. Hann fór í frekari könnunarleiðangur, gekk upp á Langjökul og eftir marga tíma komst hann og fylgdarmaður á stað þar sem sást ofan í Þórisdal.

Björn fór aftur sumarið eftir þetta, í júlí 1835 til að kanna dalinn betur og voru þeir þá sjö saman. Þeim tókst að komast fótgangandi ofan í dalinn og gátu staðfest frásögn prestanna um að þar væri lítill gróður og engir hverir. Þó getur verið að jarðhiti hafi verið þar á tímum Grettis því á hans tíma var tiltölulega stutt síðan eldhræringar voru þar nálægt. Árið 1895 reyndu tveir Þjóðverjar að kanna dalinn en komust ekki í hann, 1909 komst austurrískur maður að nafni Wunder í dalinn og var fyrstur til að mæla hæð hans yfir sjávarmáli sem reyndist vera 500 metrar.

Þarna var loks búið að staðsetja Þórisdal á formlegan máta. En það má spyrja sig hvort þetta sé í raun hinn margrómaði huldudalur, því hann er grunsamlega auðvelt er að finna og er stutt frá alfaraleið. Könnuðum fyrri alda gekk mis erfiðlega að fara ofan í dalinn sjálfann, en komust þó að honum ef veður leyfði, og í dag er það ekki svo erfitt fyrir vant göngufólk, enda hefur jökullinn hopað af stóru svæði.

Í dag er dalur merktur á landakort með nafninu Þórisdalur, en það er ekki líka besta leiðin til að fela eitthvað að láta leitendur halda að það sé þegar fundið?

Heimildir